Húsleit á heimili Fillon

François Fillon, forsetaframbjóðandi Les Republicains.
François Fillon, forsetaframbjóðandi Les Republicains. AFP

Húsleit var gerð á heimili François Fillon, forsetaframbjóðanda repúblikana, í París í gær. Hann er sakaður um að hafa útvegað eiginkonu sinni og börnum vinnu sem þau fengu greitt fyrir úr opinberum sjóðum en stunduðu ekki.

Fillon tjáði sig um rannsóknina á miðvikudag og að hann hafi verið boðaður til yfirheyrslu vegna málsins 13. mars. Hann ætli sér samt sem áður ekki að hætta við forsetaframboðið. Óttast ýmsir í flokk hans að málið komi til með að draga flokkinn niður í hyldýpi.

Leitað var á skrifstofu Fillons í franska þinginu í síðasta mánuði en á heimili hans síðdegis í gær, samkvæmt frétt Le Parisien. 

Mjög er þrýst á Fillon að axla ábyrgð og hætta við framboðið af háttsettu fólki innan flokksins og meðal þeirra sem hafa stigið fram opinberlega og gagnrýnt hann innan Repúblikanaflokksins eru Dominique de Villepin fyrrverandi forsætisráðherra.

Nýjar skoðanakannanir benda til þess að Fillon hafni í þriðja sæti fyrri umferðarinnar með 19-20% fylgi. Marine Le Pen, leiðtogi Front National leiðir í skoðanakönnum og miðjumaðurinn Emmanuel Macron fylgir fast á eftir. Ef enginn frambjóðandi fær helming atkvæða í fyrri umferðinni er kosið á milli tveggja efstu. Allar kannanir benda til þess að þar skipti engu hvort Fillon eða Macron mæti Le Pen - þeir muni hafa betur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert