Par handtekið í tengslum við hvarfið

Kafarar leita í vatni í vesturhluta Frakklands í leit að …
Kafarar leita í vatni í vesturhluta Frakklands í leit að vísbendingum í tengslum við hvarf fjölskyldunnar. AFP

Systir og mágur Pascal Troadec, sem hvarf sporlaust ásamt fjölskyldu sinni í Frakklandi, eru í varðhaldi vegna rannsóknar málsins.

Lögreglan tók skýrslu af parinu við upphaf rannsóknar á dularfullu hvarfi fjölskyldunnar. Parið hefur nú verið handtekið og sett í varðhald, að því er fram kemur í frönskum fjölmiðlum. 

Saksóknari í heimaborg fjölskyldunnar, Nantes, staðfestir við fjölmiðla að tvennt sé í haldi vegna rannsóknarinnar. Hann vildi hins vegar ekki staðfesta hverjir þetta væru.

Troadec family-fjölskyldan: Pascal, Brigitte, Charlotte og Sebastien.
Troadec family-fjölskyldan: Pascal, Brigitte, Charlotte og Sebastien. AFP

Parið var handtekið í borginni Brest en þar hafa einnig fundist munir í eigu fjölskyldunnar. 

Pascal Troadec, eiginkona hans Brigitte, sonur þeirra Sebastien og dóttirin Charlotte hurfu sporlaust af heimili sínu 16. febrúar. Börnin, sem eru 21 og 18 ára, voru í vetrarfríi heima hjá foreldrum sínum er þau hurfu.

Í húsi þeirra fundust fljótlega blóðblettir, m.a. á farsíma Sebastiens og armbandsúri móðurinnar. Ljóst var að reynt hafði verið að þurrka blóðið. Bíll hjónanna var í innkeyrslunni en bíll Sebastiens var horfinn. Hann fannst síðar.

Lögreglan segir að blóð úr föðurnum, móðurinni og syninum hafi fundist í húsinu. Ekkert blóð úr dótturinni Charlotte fannst hins vegar. 

Lögreglan sagði í fréttatilkynningu nýverið að Sebastien væri grunaður um að gert „hrollvekjandi áætlun“ sem miðaði að því að koma fjölskyldu sinni, og mögulega sér sjálfum, fyrir kattarnef.

Lögreglan rannsakar nú bíl Sebastiens. Skokkari fann muni sem tilheyra systur hans í skóglendi í um þriggja klukkustunda akstursfjarlægð frá þeim stað þar sem hún sást síðast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert