Eitt af fjórum deyr af völdum mengunar

Indverskir vegfarendur fara framhjá ruslahaug í Nýju Delhi.
Indverskir vegfarendur fara framhjá ruslahaug í Nýju Delhi. AFP

Mengun er dánarorsök eins af hverjum fjórum börnum sem deyja áður en þau ná fimm ára aldri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar en með mengun er átt við eitrað loft, óhreint vatn og skort á hreinlæti.

Samkvæmt skýrslunni deyja 1,7 milljón barna á ári hverju vegna mengunar í umhverfinu en þar segir einnig að hægt sé að koma í veg fyrir dauðsföllin með þekktum aðferðum á borð við að sjá heimilum fyrir hreinni orkugjöfum til eldamennsku til að koma í veg fyrir loftmengun innanhúss.

„Mengað umhverfi er banvænt, sérstaklega ungum börnum,“ segir Margaret Chan, framkvæmdastjóri WHO. „Líffæri þeirra og ónæmiskerfi sem eru enn að þroskast, og smáir líkamar þeirra og öndunarvegir, gera þau afar viðkvæm fyrir óhreinu lofti og vatni.“

Loftmengun eykur m.a. líkurnar á lungnabólgu, sem er algeng dánarorsök barna yngri en fimm ára, og á öndunarfærasjúkdómum á borð við astma.

Samkvæmt skýrslunni deyja 570.000 börn undir fimm ára aldri úr öndunarfærasjúkdómum á hverju ári og 361.000 úr niðurgangi, sem rekja má til mengaðs vatns og skorts á hreinlæti.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert