Hælisleitendur hnepptir í varðhald

Ungverska þingið hefur samþykkt að allir þeir sem sækja um hæli verði sendir sjálfkrafa í varðhald í gámabúðum sem hefur verið komið upp við sunnanverð landamæri landsins. Frumvarpið var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða þrátt fyrir að mannréttindasamtök hafi lýst yfir áhyggjum vegna þessa.

AFP

Að sögn forsætisráðherra landsins, Viktor Orban, var nauðsynlegt að binda þetta í lög vegna allra þeirra hryðjuverka sem flóttafólk hefur framið að undanförnu í Evrópu.

Samkvæmt lögunum verða allir þeir hælisleitendur sem koma inn í Ungverjaland og þeir sem þegar eru í landinu verða settir í varðhald eða í gámabúðirnar. Flóttafólkinu verður bannað að ferðast innanlands og yfirgefa landið á meðan umsókn þeirra er til skoðunar nema það fari aftur sömu leið yfir landamærin til Serbíu.

Samkvæmt lögunum verður ólöglegum innflytjendum og hælisleitendum haldið á sérstöku svæði á landamærunum þangað til niðurstaða fæst í þeirra mál. 

Með nýju lögunum taka Ungverjar aftur upp kerfi sem var við lýði í landinu þangað til 2013 en þá var það afnumið tímabundið vegna þrýstings frá Evrópusambandinu og Mannréttindadómstól Evrópu.

AFP

Amnesty International segir að með nýju lögunum sé verið að lítilsvirða leiðbeinandi tilmæli ESB um bann við því að hneppa fólk í varðhald á grundvelli hælisumsóknar.

Orban hefur barist með kjafti og klóm gegn innflytjendum enda eru þeir eitur í hans huga. Árið 2015 var reist há gaddavírsgirðing á landamærum Serbíu og Króatíu og þúsundum flóttamanna hefur verið vísað úr landi fyrir að hafa komið þangað með ólöglegum hætti. Jafnframt hefur flóttamannabúðum verið lokað víða og fólki komið fyrir í gámum. Ríkisstjórn Ungverjalands segir að með þessu sé verið að verja bæði Ungverja og borgara ríkja ESB. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert