SÞ kallar eftir aðgerðum fyrir Sómalíu

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, brýnir alþjóðasamfélagið til aðgerða til að koma í veg fyrir hungursneyð í Sómalíu, þar sem þurrkur hefur skilið þrjár milljónir manna eftir án matar.

Afríkuríkið stendur frammi fyrir þriðju hungursneyð sinni á þeim 25 árum sem þar hefur ríkt borgarastyrjöld og stjórnleysi. 260 þúsund manns létust í hungursneyð í landinu árið 2011.

„Það er möguleiki að koma í veg fyrir það versta... en við þurfum gífurlegan stuðning frá alþjóðasamfélaginu til að koma í veg fyrir að hörmungar ársins 2011 endurtaki sig,“ sagði Guterres á blaðamannafundi í hádeginu, en hann er staddur í Sómalíu.

„Það réttlætir umfangsmikil viðbrögð,“ bætti hann við.

Búfénaðurinn drepist

Eftir að hafa komið við í höfuðborginni Mogadishu heimsótti Guterres búðir landflótta fólks í borginni Baidoa, þar sem þurrkurinn hefur komið illa við.

„Meginástæðan fyrir komu okkar hingað er þurrkurinn,“ segir Mainouna, móðir sex barna sem kom í búðirnar í síðasta mánuði. „Það er skortur á vatni, skortur á mat. Búfénaður okkar hefur drepist.“

Hún kom aðeins með þrjú barna sinna í búðirnar, en það yngsta er eins árs, og skildi hin eftir með fjölskyldunni í suðurhluta landsins.

Guterres segir heiminn bera siðferðislega skyldu til að hjálpa fólki í hennar stöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert