CIA-lekinn alvarlegri en birting pósta Clinton

Donald Trump og Hillary Clinton. Trump lofaði Wikileaks fyrir birtingu …
Donald Trump og Hillary Clinton. Trump lofaði Wikileaks fyrir birtingu á póstum tengdum framboði Clinton, en telur birtingu CIA-skjalanna nú mikið áhyggjuefni. AFP

Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins, sagði í dag að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði „miklar áhyggjur“ af birtingu Wikileaks á gögnum frá bandarísku leyniþjónustunni CIA, sem sögð eru sanna að CIA geti brotist inn í hugbúnað í símum, tölvum og sjónvörpum.

Spicer neitaði þó, að sögn fréttastofu CNN, að staðfesta að skjölin kæmu raunverulega frá CIA:

„Ég held að hann hafi miklar áhyggjur af ásökununum og því hvað kunni eða kunni ekki að gerast,“ sagði Spicer. „Þetta eru ásakanir, þetta er ekki eitthvað sem við munum staðfesta á þessum tíma, en líkt og þið getið ímyndað ykkur út frá fyrri orðum forsetans veldur þetta honum miklum áhyggjum.“

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur hafið rannsókn á birtingu Wikileaks á gögnum CIA að því er CNN hefur eftir nokkrum heimildamönnum.

Spicer dró úr samanburði vegna þess lofs sem Trump jós Wikileaks vegna birtingar uppljóstrunarvefjarins á tölvupóstum John Podesta, stjórnanda forsetaframboðs Hillary Clinton, og birtingunni nú.

Sagði hann vera verulega mikinn mun á leka persónulegra tölvupósta og birtingu leynilegra upplýsinga. Trump vísaði reglulega í tölvupóstana, sem Wikileaks birti, í kosningabaráttu sinni og lofaði vefinn í hástert.

Lekann nú sagði Spicer hins vegar eiga að vekja áhyggjur hjá hverjum einasta Bandaríkjamanni vegna þeirra áhrifa sem birtingin hefði á öryggi þjóðarinnar.

„Þetta ætti að vekja verulegar áhyggjur hjá fólki varðandi þá leka sem verða og löngunina til að upplýsa þá,“ sagði Spicer. „Það ætti öllum að vera misboðið.“

Þá tengdi Spicer þessa nýjust birtingu á vef Wikileks fullyrðingum Trumps um að Barack Obama, fyrrverandi forseti, hafi látið hlera síma Trumps í Trump-turninum í aðdraganda kosninganna án frekari skýringa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert