Drápu 22 flóttamenn

Þúsundir flóttamanna leggja á sig hættuför yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu …
Þúsundir flóttamanna leggja á sig hættuför yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu ár hvert. AFP

Smyglarar drápu 22 afríska flóttamenn á strönd í Líbýu. Flóttafólkið átti að fara um borð í bát og ætlaði að reyna að fara hina hættulegu leið til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Fólkið neitaði hins vegar að fara um borð í bátinn þar sem veður var vont og það treysti sér ekki til ferðarinnar. 

Talsmenn Rauða hálfmánans í Líbýu hafa staðfest þetta og segja drápin hafa átt sér stað um helgina.

Fjöldi flóttamanna reynir að komast til Evrópu frá Líbýu. Þar safnast flóttafólk frá mörgum Afríkulöndum saman. 

Smyglarar fá svo greitt fyrir að koma fólkinu yfir Miðjarðarhafið. Yfirleitt er áfangastaðurinn ítalska eyjan Lampedusa. Um 300 kílómetra leið er að ræða. 

Frá því í byrjun árs og til dagsins í dag hefur að minnsta kosti 521 flóttamaður drukknað á leið yfir hafið. Á sama tímabili náðu 20 þúsund þeirra landi í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert