Franskir nemendur ráðast gegn lögreglu

Forsetaframbjóðandinn Marine Le Pen sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins …
Forsetaframbjóðandinn Marine Le Pen sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins og sagði að koma þyrfti á lögum og reglu í lýðveldinu. AFP

Menntamálaráðherra Frakklands kallaði í dag eftir aðgerðum eftir að hópur gagnfræðaskólanema fór um og eyðilagði almenningseigur og réðst gegn lögreglu. 54 voru handteknir í kjölfar átakanna.

Ummælin lét ráðherrann falla eftir að myndir birtust af lögreglu beita táragasi gegn hópnum í Saint-Denis, einu úthverfa Parísarborgar. Átökin milli lögreglu og nemanna brutust út eftir að skólinn þeirra var rýmdur í kjölfar þess að kveikt var á reyksprengjum í skólabyggingunni.

Þegar nemendur streymdu út hófu 80-100 þeirra að kasta grjóti að lögreglu, kveikja í ruslafötum og eyðileggja almenningseigur.

Þetta mun ekki vera einangrað tilvik en ítrekaðar uppákomur hafa átt sér stað í gagnfræðaskólum Parísar síðustu vikur. Reiði nemenda má rekja til meintrar árásar lögreglu gegn ungum svörtum manni, sem hefur sakað lögregluþjóna um að hafa nauðgað sér með kylfu.

„Þetta eru alvarlegir gjörningar skemmdarvarga sem við þurfum að refsa harkalega,“ sagði menntamálaráðherrann Najat Vallaud-Belkacem við blaðamenn í dag.

Frakkar ganga til forsetakosninga 23. apríl og 7. maí næstkomandi en innflytjenda- og öryggismál eru meðal helstu kosningamálanna.

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, hefur verið tíðrætt um öryggi og innflytjendur og gaf frá sér yfirlýsingu vegna atviksins í dag.

„Það er óásættanlegt að skemmdarvargar ógni framtíð landsins okkar og stofni kennurum og öðrum nemendum í hættu. Við þurfum að koma aftur á lögum og reglu í lýðveldinu og vinna aftur töpuð landsvæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert