Meta öryggisveikleika vegna Wikileaks

Snjallsímar, sjónvörp og tölvur eru meðal þeirra tækja sem CIA …
Snjallsímar, sjónvörp og tölvur eru meðal þeirra tækja sem CIA geta brotist inn í samkvæmt skjölunum sem Wikileaks birti. AFP

Fyrirtæki í upplýsingatækniiðnaðinum verða að leggja aukna vinnu í að bæta öryggi notenda eigi þau að koma í veg fyrir að tölvuþrjótar komist yfir upplýsingarnar sem fólk deilir þar. 

Þetta sagði framkvæmdastjóri netvarnafyrirtækisins Avast við Reuters-fréttastofuna eftir að Wikileaks deildi í gær þúsundum skjala sem sögð eru sýna fram á að bandaríska leyniþjónustan CIA búi yfir tækninni til að brjótast inn í hugbúnað tækja á borð við síma, tölvu og sjónvarp.

Reuters segir tæknifyrirtæki nú vinna af kappi við að kanna hve miklu tjóni öryggisveikleikar séu að valda þeim í kjölfar uppljóstrana Wikileaks. Fréttastofan hefur þó eftir sumum fyrirtækjanna að þau þurfi ítarlegri upplýsingar um hvað lá að baki aðgerðum CIA áður en þau geti rannsakað mögulegan upplýsingaþjófnað.

Sinan Eren, varaforstjóri tékkneska vírusvarnafyrirtækisins Avast, hvatti í dag þá sem hanna snjallsímahugbúnað fyrir Apple og Google að veita öryggisfyrirtækjum aukin aðgang að tækjum sínum svo hægt sé að laga þekkta galla sem fyrst.

Geta komið í veg fyrir árásir í rauntíma

„Við getum komið í veg fyrir tölvuárásir á rauntíma, ef við fáum krækjuna að farsímakerfinu,“ sagði Eren í símaviðtali frá Silicon Valley í Bandaríkjunum.

„Ef við getum keyrt viðmiðstilfærslur þannig að farsímakerfi loki ekki á aðgang þá getum við frekar greint það þegar búnaður tölvuþrjóta leynist í farsímanum.“

Rúmlega 400 milljónir notenda nýta vírusvarnaforrit Avast, en fyrirtækið var meðal þeirra sem nefnd voru í Wikileaks-skjölunum sem framleiðandi forrita sem CIA reyndi að brjótast í gegnum.

Lekinn, sem Wikileaks segir vera þann stærsta í sögu CIA, byggir á miklu magni tækniupplýsinga sem sérfræðingar í netöryggismálum segja virðast vera réttar.

Alls birti Wikileaks að þessu sinni 8.761 skjal þar sem listaðar eru árásir á Apple- og Google-snjallsíma sem milljarðar manna nota. Þá er þar einnig að finna upplýsingar um árásir á hugbúnaðarkerfi á borð við Windows, Linux og Apple Mac, sem og á sex stærstu vefvafrana.

Í yfirlýsingu frá Apple vegna málsins segir að tæplega 80% iPhone-notenda keyri nú á nýjustu iOS-hugbúnaðarútgáfunni þar sem búið sé að laga áður þekkta öryggisgalla. Google neitaði að tjá sig um málið við Reuters og hjá Microsoft segjast menn nú vera að skoða þær upplýsingar sem komi fram hjá Wikileaks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert