Vilja frekar byssukúlu en drukknun

Eyðieyjan heitir Thengar Char og er í Bengalflóa. Yfir hana …
Eyðieyjan heitir Thengar Char og er í Bengalflóa. Yfir hana flæðir reglulega. Þangað á að flytja flóttafólkið. AFP

Þúsundir fólks af Rohingja-þjóðinni sem flúðu til Bangladess undan ofbeldi í Búrma hafa nú snúið aftur til heimalandsins. Ástæðan er áform yfirvalda í Bangladess að flytja flóttafólk út á eyju í árósum sem fer reglulega á kaf á regntímanum. 

Um 73 þúsund Rohingjar hafa flúið til Bangladess frá því í október er stjórnvöld í Búrma hófu herferð gegn þeim. Rohingjarnir lýsa nauðgunum og margvíslegu harðræði sem varð til þess að þeir áttu engan annan kost en að flýja. Rohingjar eru múslimar og minnihlutahópur í Búrma þar sem flestir eru Búddatrúar. Þeir hafa verið ofsóttir áratugum saman.

Flóttamannabúðir þeirra í Bangladess eru í Cox Bazar. Þær eru orðnar yfirfullar og aðbúnaður fólksins er slæmur. Yfirvöld í Bangladess ráða engan veginn við flóttamannastrauminn enda eitt fátækasta ríki heims. Þeirra viðbrögð voru að leggja á ráðin um að flytja flóttafólkið út á eyju í Bengalflóa. Eyjan er óbyggð og reglulega sekkur stór hluti hennar í vatn vegna flóða. 

Leiðtogar Rohingjanna segja að yfir 5.000 þeirra hafi nú snúið aftur til Búrma, þrátt fyrir að eiga þar á hættu að vera misþyrmt. 

„Þeir kjósa að deyja af völdum byssukúlna frekar en náttúrunnar,“ segir einn leiðtogi fólksins, Noor Hafiz. „Fólk varð mjög óttaslegið er það heyrði af áformum um brottflutning. Við heyrðum að eyjan færi á kaf á monsoon-tímanum. Núna getum við bara vona að ástandið heima batni.“

Búddamunkar og fleiri sem leggjast gegn því að Rohingjar fái …
Búddamunkar og fleiri sem leggjast gegn því að Rohingjar fái að vera í Búrma mótmæla veru þeirra þar. AFP

Hafiz segir að um 3.000 manns hafi yfirgefið flóttamannabúðirnar þar sem hann dvelur. Um 2.000 til viðbótar hafa yfirgefið aðrar búðir.

„Þau segjast ekki vilja deyja í flóðunum,“ segir kona sem tilheyrir Rohingja-þjóðinni og er leiðtogi fólksins í búðum sem kallast Leda. 

Fellibylir láta reglulega til sín taka í Bengalflóa og því engin tilviljun að eyjan sé óbyggð. Mannréttindasamtök segja að áætlanir um flutning fólks á eyðieyjuna séu „fáránlegar.“

Yfirvöld í Bangladess virðast láta þessa gagnrýni sem vind um eyru þjóta og hafa fyrirskipað byggingu þyrlupalls og bryggju á eyjunni. Þau segja að um 400.000 rohingjar búið í Bangladess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert