Frestar innheimtu á „sníklaskatti“

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefur varað við að hart verði …
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefur varað við að hart verði tekið á mótmælendum verði efnt til frekari funda í mótmælaskyni við skattheimtuna. AFP

Forseti Hvíta-Rússlands hefur frestað innheimtu á sérstökum skatti sem átti að innheimta af þeim landsmönnum sem ekki eru í fullri vinnu. Skattinum hefur verið lýst sem tilskipun gegn „samfélagslegum sníkjudýrum“.

Forsetinn, Alexander Lukashenko, hefur nú sagt að þeir sem vinna færri en 183 daga í ár þurfi ekki að greiða skattinn að þessu sinni. Hann ítrekaði þó að ekki yrði hætt við að innheimta skattinn. Samkvæmt tilskipuninni, sem var lögfest 2015, er þeim sem vinna færri vinnudaga en 183 á ári gert að greiða sérstakan skatt að andvirði um 27.000 krónur vegna tapaðra skatttekna.

Fjölmennir mótmælafundir voru haldnir í fjölda borga í Hvíta-Rússlandi í síðasta mánuði vegna skattheimtunnar og fleiri mótmælafundir hafa verið skipulagðir í þessum mánuði.

Lukashenko tilkynnti hins vegar á ríkisstjórnarfundi í dag að innheimtu skattsins yrði frestað.  „Það verða gerðar breytingar á tilskipuninni í þessum mánuði, en það verður ekki hætt við hana,“ hefur Belta-ríkisfréttastofan eftir forsetanum. 

Þá sagði Lukashenko að þeir sem greiddu skattinn í fyrra fengju hann endurgreiddan ef þeim tækist að finna vinnu á næsta ári.

Hann varaði þá við því að hart yrði tekið á mótmælendum yrði efnt til frekari funda.

Samkvæmt upplýsingum sem Reuters-fréttastofan hefur frá skattayfirvöldum í landinu hefðu 470.000 manns átt að greiða skattinn í fyrra, en einungis 50.000 eru búnir að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert