Kjör Le Pen yrði „algjört stórslys“

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Forsetakjör Marine Le Pen yrði „algjört stórslys“ að mati sendiherra Frakklands í Bandaríkjunum, Gérard Araud. Araud tjáði sig um Le Pen í viðtali við The Washington Post í vikunni og fetar í fótspor sendiherra Frakklands í Japan með gagnrýni sinni á stjórnmálakonuna.

Le Pen, sem er þekkt fyrir skoðanir sínar gegn innflytjendum og Evrópusambandinu, vonast til þess að verða kjörin forseti Frakklands í forsetakosningum í landinu í vor.

„Á diplómatískum nótum myndi ég segja að það yrði algjört stórslys,“ sagði Araud um mögulegt kjör Le Pen. Eitt af kosningaloforðum Le Pen er að koma Frakklandi úr Evrópusambandinu og sagði Araud það leiða til falls Evrópusambandsins þar sem „Evrópusambandið án Frakklands gengur ekki upp.“.

„Og það þýðir fall evrunnar og efnahagshrun sem mun hafa afleiðingar um allan heim.“

Í grein The Wasington Post er hinum 64 ára gamla Araud lýst sem „gríðarlega áhrifamiklum“ sendiherra sem hefur þjónað Frakklandi á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum síðasta áratuginn.

Í viðtalinu hrósaði Araud jafnframt kollega sínum Thierry Dana, sendiherra Frakklands í Japan, sem lýsti því yfir í pistli í Le Monde að ef Le Pen myndi vinna myndi hann neita að þjóna Frakklandi sem diplómati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert