Skotar reyni sjálfstæði árið 2018

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands. AFP

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, segir mögulegt að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands haustið 2018.

Í samtali við fréttastofu BBC, sem birt var í dag, segir Sturgeon að kosning um sjálfstæði á meðal Skota, mikill meirihluti hverra kaus áframhaldandi veru í Evrópusambandinu, væri skynsamleg í ljósi þess að Bretland væri á leið út úr sambandinu.

Þá sagði hún aðspurð að hægt væri að halda slíka atkvæðagreiðslu haustið 2018.

Haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands árið 2014, þar sem 55% völdu að vera áfram hluti af Bretlandi en 45% vildu yfirgefa það.

Breska ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að sú kosning geri út um þessa spurningu fyrir þessa kynslóð, en Sturgeon hefur sagt á móti að aðstæður hafi breyst þar sem nú sé Skotland á leið út úr ESB gegn vilja sínum.

Sturgeon þarf þó leyfi frá ríkisstjórninni til að mega halda aðra atkvæðagreiðslu. Herma sumar heimildir að þess gæti hún óskað á næsta landsfundi flokks síns, sem haldinn verður síðar í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert