„Þetta er í raun og veru múslimabann“

Frelsisstyttan.
Frelsisstyttan. AFP

Washingtonríki mun fara þess á leit við alríkisdómara að hann hnekki nýju ferðabanni Donald Trump Bandaríkjaforseta sem beinist gegn ríkisborgurum sex ríkja þar sem meirihluti íbúa er múslimar. Hawaí hefur þegar sagst munu grípa til lagalegra úrræða vegna bannsins.

Bob Ferguson, ríkissaksóknari Washingtonríkis, sagði að þrátt fyrir að umtalsverðar breytingar hefðu verið gerðar á ferðabannstilskipun forsetans væru enn á henni lagalegir ágallar.

Ferguson sagði áhrif nýja ferðabannsins minni en þess gamla en skaðvænleg engu að síður. „Þetta er í raun og veru múslima-bann,“ sagði hann.

Ríkissaksóknarar New York og Oregon hafa tilkynnt að þeir muni taka þátt í málsókn gegn banninu og þá hefur Minnesota þegar gripið til aðgerða.

Samkvæmt forsetatilskipuninni sem Trump skrifaði undir á mánudag er ríkisborgurum Íran, Jemen, Líbíu, Sómal­íu, Súd­an og Sýrlands óheimilt að ferðast til Bandaríkjanna en Írak er undanþegið banninu, ólíkt hinu fyrra.

Áhrif fyrra bannsins voru fryst af dómaranum James Roberts en að sögn Ferguson ná forsendur þess úrskurðar einnig til nýja bannsins.

Washingtonríki mun m.a. bera því við að bannið feli í sér mismunun gegn múslimum og byggir m.a. á ummælum Trump og stuðningsmanns hans, Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra New York.

Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, hefur sagt nýja bannið samrýmast alríkislögum.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert