Þurfti að lenda vegna rifrildis um teppi

Farþegaþota yfir Bandaríkjunum. Mynd úr safni.
Farþegaþota yfir Bandaríkjunum. Mynd úr safni. AFP

Flugvél bandaríska flugfélagsins Hawaiian Airlines á leið frá Las Vegas til Honolulu þurfti að lenda í Los Angeles í gærkvöldi, vegna rifrildis sem braust út um teppi.

Einn farþeganna hafði beðið um teppið vegna þess að honum var kalt, en var alvarlega misboðið þegar honum var tjáð að hann þyrfti að borga tólf bandaríkjadali fyrir, eða sem nemur rúmlega 1.300 krónum.

Lögregla segir manninn, sem er 66 ára, hafa sagt að fyrir þessa svívirðingu myndi hann „vilja taka einhvern aftur fyrir eldiviðarskýlið“ (e. take someone behind the woodshed for this).

Flugstjórinn mat ummælin ógnandi og ákvað að lenda vélinni í Los Angeles.

Enginn glæpur var þó framinn, að sögn lögreglu. Maðurinn hefur beðið um að ræða við fulltrúa flugfélagsins, þar sem hann telur að hann eigi ekki að hafa þurft að borga fyrir teppið þar sem kalt var inni í vélinni, samkvæmt frétt LA Times.

Hann fór þá sjálfviljugur frá borði þegar vélin lenti í Los Angeles og náði öðru flugi, samkvæmt Rob Pedregon, talsmanni flugvallarlögreglunnar.

„Þú veist, ef ég hefði verið farþegi um borð í þessari vél þá hefði ég boðist til að borga þessa tólf dali fyrir hann,“ bætti hann við í samtali við fréttastofu AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert