40 farast í sprengjuárás í Damaskus

40 manns hið minnsta fórust og 120 særðust í tveimur sprengjuárásum á rútustöð í borginni Damaskus í Sýrlandi í dag. Sprengjuárásunum var beint gegn pílagrímum úr hópi síja múslima sem voru á leið til bæna við hof í nágrenninu að því er fréttavefur Reuters hefur eftir utanríkisráðuneyti Íraks.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni, sem Manar-sjónvarpsstöðin, sem rekin er af skæruliðasamtökunum Hezbollah, segir hafa verið framkvæmda af tveimur sjálfsvígsmönnum.

Sýrlenska ríkissjónvarpstöðin sýndi myndir frá vettvangi þar sem sjá mátti tvær illa farnar rútur, blóðslettur og skófatnað á víð og dreif um svæðið.

Bashar al-Assad forseti Sýrlands hefur notið stuðnings yfirvalda í Írak, Afganistan og Líbanon í stríðinu gegn uppreisnarmönnum.

Árásin átti sér stað á rútustöð í nágrenni  Bab-al Saghir-kirkjugarðsins sem pílagrímar heimsækja eftir bænahald við Sayeda Zeinab-hofið. Seinni sprengjan sprakk um 10 mínútum á eftir þeirri fyrri, til að ná einnig til þeirra sem komið hefðu að til að aðstoða fórnarlömb fyrri sprengingarinnar.

Sprengjuárás var gerð í nágrenni Sayyida Zeinab-hofsins í júní á síðasta ári og lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams yfir ábyrgð á þeirri árás.

Rannsakendur hjá sýrlensku lögreglunni skoða skemmdir á rútunum sem urðu …
Rannsakendur hjá sýrlensku lögreglunni skoða skemmdir á rútunum sem urðu fyrir sprengingunni. Fjörutíu manns hið minnsta fórust. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert