Fillon segir vin hafa borgað jakkaföt sín

Nú er Francois Fillon í kastljósinu vegna sérsaumaðra jakkafata sinna, …
Nú er Francois Fillon í kastljósinu vegna sérsaumaðra jakkafata sinna, sem aðrir eru sagðir hafa greitt fyrir en hann sjálfur. AFP

Francois Fillon, forsetaframbjóðandi franska Repúblikanaflokksins, var í kastljósi fjölmiðla á ný í dag þegar hann viðurkenndi að „vinur“ hefði greitt fyrir sérsaumuð jakkaföt sín sem metin eru á þúsundir evra.

Frá því árið 2012 hefur Fillon fengið föt að andvirði 48.500 evrur, sem er um 5,6 milljónir kr., frá Arnys, klæðskera fína og fræga fólksins, að því er vikublaðið Journal du Dimanche (JDD) greindi frá.

Ekki eru nema sex vikur nú þar til fyrsta umferð frönsku forsetakosninganna fer fram og á Fillon enn yfir höfði sér ákærur vegna launagreiðslna til eiginkonu sinnar og barna fyrir störf sem talið er að þau hafi ekki unnið.

Vikuritið segir jakkafötin hafa verið að mestu borguð með reiðufé og að ung kona sjái venjulega um að koma með peninga til skraddarans, sem hefur í gegnum tíðina saumað föt á ekki ómerkari menn en Andy Warhol og tískukónginn Yves Saint Laurent. 

Pöntun fyrir tvenn jakkaföt nú í febrúar var hins vegar greidd með ávísun sem var undirrituð af örlátum vin, sem blaðið segir hafa óskað nafnleyndar.

„Ég borgaði að beiðni Francois Fillon,“ hefur JDD eftir eiganda ávísanaheftisins sem bætti við: „og ég hef ekki fengið minnstu þakkir síðan.“

Viðskiptablaðið Les Echos hefur eftir Fillon í dag að vinur hafi gefið honum jakkafötin. „Og hvað með það?“ sagði Fillon. „Einkalíf mitt er undir smásjá og þessi meðhöndlun á mér, ég veit ekki hver er að reyna að skaða mig.“

Starfsmaður framboðs Fillon hafnaði alfarið að jakkaföt Fillon hefðu annars verið greidd með reiðufé af einhverjum öðrum. „Enginn alvöruklæðskeri myndi taka við peningagreiðslum fyrir svona háar fjárhæðir,“ sagði hann.

Verslunin sjálf hefur hins vegar neitað að svara fyrirspurnum vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert