Assad hæddist að Bandaríkjamönnum

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti ræddi við kínverska sjónvarpsstöð um helgina.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti ræddi við kínverska sjónvarpsstöð um helgina. AFP

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hæddist að veru Bandaríkjamanna í Sýrlandi og kallaði hermenn þeirra „innrásarlið“ sem hefði ekkert leyfi fengið til að koma þangað. Assad segist ekki hafa fengið nein skýr skilaboð frá ríkisstjórn Donalds Trump um aðgerðir gegn Ríki Íslams.

Þetta sagði Assad í viðtali við kínversku sjónvarpsstöðina Phoenix TV.

„Allir erlendir hermenn sem koma til Sýrlands án þess að fá boð eða leyfi, þeir eru innrásarmenn, hvort sem þeir eru bandarískir, tyrkneskir eða eitthvað annað,“ sagði Assad. „Og við höldum að þetta muni ekki hjálpa. Hvað ætla þeir að gera? Berjast við Ríki íslams? Bandaríkjamenn hafa tapað nánast hverju einasta stríði sem þeir hafa háð. Þeir töpuðu í Írak, þeir urðu að hörfa þaðan að lokum. Meira að segja í Sómalíu, svo við tölum nú ekki um Víetnam og Afganistan. Þeir ná hvergi árangri, þeir skapa bara ringulreið, þeir eru mjög góðir í því að skapa vandamál og brjóta niður en þeir eru mjög lélegir í að finna lausnir.“

Viðtalið við Assad var birt í ríkissjónvarpi Sýrlands á laugardag.

Bandarískir hermenn eru komnir til norðurhluta Sýrlands og er tilgangurinn, að sögn þeirra sjálfra, að styðja við herlið heimamanna á svæðinu. Hermennirnir eru nú að undirbúa áhlaup á borgina Raqqa sem Ríki íslams telur sína „heimaborg“ í Sýrlandi. Þetta hafa fréttamiðlar eftir heimildum innan hersins og Bandaríkjastjórnar en varnarmálaráðuneytið hefur ekki viljað staðfesta opinberlega af öryggisástæðum.

Þá eru um 100 sérsveitarmenn í nágrenni Manbij í Sýrlandi. Stjórnin hefur staðfest veru þess liðs á svæðinu til að vernda það fyrir mögulegum árásum Tyrkja, Rússa og sýrlenska stjórnarhersins sem einnig er á svæðinu að berjast gegn vígamönnum Ríkis íslams. Sérsveitin hefur það hlutverk að aftra vígamönnum frekari framgöngu á svæðinu en yfirleitt er hlutverk hennar að þjálfa heimamenn í hernaði.

Hrósaði Rússum

Í viðtalinu var Assad spurður hvort til greina kæmi að vinna með Bandaríkjamönnum. Hann sagði slíkt vel mögulegt en að hingað til hefði engum formlegum tengslum eða samvinnu verið komið á. Hann sagðist enn ekkert hafa séð frá Bandaríkjamönnum sem styddi það loforð þeirra að brjóta Ríki íslams á bak aftur.

Assad hrósaði Rússum fyrir sitt framlag í stríðinu í Sýrlandi og sagði þá hafa náð þar árangri. Skýringin væri sú að þeir styddu við stjórnarherinn í því verkefni að draga úr mætti Ríkis íslams. Þá lagði Assad áherslu á að Ríki íslams væru ekki einu hryðjuverkasamtökin sem störfuðu í Sýrlandi. Benti hann sérstaklega á al-Nusra sem hafa tengsl við al-Qaeda.

Assad sagði að stjórnarherinn væri að nálgast Raqqa, höfuðvígi Ríkis íslams í Sýrlandi. „Þetta er í forgangi hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert