Biðja Tyrki að róa sig

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins biður Tyrki að forðast óheftar yfirlýsingar og aðgerðir sem geti aukið spennuna á milli Tyrkja og Hollendinga annars vegar og Þjóðverja hins vegar. Deilan snýst um bann við fundarhöldum tyrkneskra ráðherra í borgum ríkjanna tveggja þar sem Tyrkir, sem eru búsettir þar, eru hvattir til þess að greiða atkvæði með auknum völdum forseta Tyrklands.

Undir yfirlýsingu ESB skrifa þau Federica Mogherini, sem fer með erlend málefni í framkvæmdastjórninni, og stækkunarstjóri ESB, Johannes Hahn.

Nokkur ríki ESB hafa gagnrýnt Tyrki fyrir ofsafengin viðbrögð við synjun evrópskra borga um að halda slíka fundi. Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Er­doğ­an, sakar Þjóðverja og Hollendinga um nasisma og fasisma. En borgirnar segja að það sé gert í öryggisskyni að banna fundina.

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, segir ummæli Er­doğ­an óásættanleg og utanríkisráðherra Þýskalands segist vonast til þess að Tyrkir nái áttum að nýju. 

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ákvað að fresta fundi með forsætisráðherra Tyrklands en til stóð að þeir Binali Yildirim myndu hittast síðar í mánuðinum. Rasmussen segir að hann hafi áhyggjur af stöðu lýðræðis í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert