Líkamsleifar Kim smurðar

Kim Jong-nam.
Kim Jong-nam.

Lík Kim Jong-nam hefur verið smurt til að verja það rotnun. Það liggur enn í líkhúsi í Kuala Lumpur eftir að Kim var ráðinn af dögum á alþjóðaflugvellinum í borginni. Stjórnvöld í Pyongyang hafa ítrekað krafist þess að fá líkamsleifarnar afhentar en yfirvöld í Malasíu hafa neitað að verða við beiðninni fyrr en þeim hafa borist lífsýni úr nánum ættingja.

Það var aðstoðarforsætisráðherra Malasíu, Ahmad Zahid Hamidi, sem greindi frá því að gripið hefði verið til ráðstafana til að varðveita líkið. Embættismaður sagði í samtali við AFP að tveir valmöguleikar hefðu verið í stöðunni; annars vegar að smyrja líkið eða geyma það við lágt hitastig.

Vegna þess að rannsókn stendur enn yfir á dauða Kim kom seinni kosturinn ekki til greina.

„Ef við geymum fyrir neðan núll gráðu hita þá verður það að ís,“ sagði embættismaðurinn. „Í líkhúsinu eru líkin geymd við 2 til 8 gráðu hita á Celsíus. En eftir mánuð fara þau að brotna niður,“ bætti hann við.

New Straits Times sagði frá því í dag að lík Kim hefði þegar verið látið þiðna nokkrum sinnum vegna rannsóknarinnar og væri þegar farið að sýna ummerki niðurbrots.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert