Skotland færi aftast í röðina

Alfonso Dastis, utanríkisráðherra Spánar.
Alfonso Dastis, utanríkisráðherra Spánar. AFP

Skotland færi aftast í röðina þegar kæmi að inngöngu í Evrópusambandið ef landið segði skilið við breska konungsríkið. Þetta er haft eftir Alfonso Dastis, utanríkisráðherra Spánar, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag.

Ráðherrann lét ummælin falla í gær en þar brást hann við fréttum af því að heimastjórn Skotlands hefði óskað eftir því að fram færi þjóðaratkvæði í annað sinn um það hvort landið ætti að lýsa yfir sjálfstæði frá Bretlandi.

Fram kemur í fréttinni að ummælin séu til marks um að ráðamenn á Spáni ætli ekki að hvika í þeim efnum frekar en áður. Ríkisstjórn landsins óttast að útganga Skota úr Bretlandi gæti orðið vatn á milli aðskilnaðarsinna í Katalóníu sem tilheyrir Spáni.

Ennfremur segir að Dastis hafi sagt við blaðamenn í Perú að sjálfstætt Skotland gæti ekki verið áfram í Evrópusambandinu. Umsókn ríkis um inngöngu í sambandið þarf samþykkja allra ríkjanna sem eru þar fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert