Stríðsglæpadómstóll í Kólumbíu

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu.
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu. AFP

Öldungadeild Kólumbíu hefur samþykkt stjórnarskrárbreytingar um að settur verði upp sérstakur stríðsglæpadómstóll í landinu.

Stofnun dómstólsins var lykilatriði í sögulegum friðarsamningi stjórnvalda við skæruliðahreyfinguna FARC sem batt enda á fimm áratuga átök í landinu.

Dómstóllinn mun skiptast í þrennt: Sannleiksnefnd, deild sem leitar að týndu fólki og sjálfstæðri deild sem réttar vegna stríðsglæpa sem voru framdir á meðan á átökunum stóð, allt þar til 1. desember 2016.

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, hlaut friðarverðlaun Nóbels í október síðastliðnum fyrir þátt sinn í að binda enda á átökin í landinu sem stóðu yfir í 53 ár.

Skæruliðasamtökin FARC hófu að berjast gegn kólumbískum stjórnvöldum árið 1964 eftir bændauppreisn sem herinn braut á bak aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert