Báru kennsl á líkið með DNA úr barni Kims

Kim Jong-nam var myrtur á flugvelli í Malasíu.
Kim Jong-nam var myrtur á flugvelli í Malasíu. AFP

Malasísk yfirvöld notuðu erfðaefni úr einu af börnum Kims Jong-nam til að bera formlega kennsl á lík hans. Kim var myrtur á flugvelli í Kuala Lumpur. Hann er hálfbróðir einræðisherra Norður-Kóreu, Kims Jong-un.

Forsætisráðherra Malasíu, Ahmad Zahid Hamidi, sagði frá þessu í dag. 

Kim Jong-nam var 45 ára er hann var myrtur þann 13. febrúar. Tvær konur komu upp að honum á flugvellinum og settu taugagas upp að vitum hans. 

Morðið kom af stað milliríkjadeilum. Starfsmenn sendiráðs Norður-Kóreu í Malasíu kröfðust þess að fá lík Kims afhent. Við því var ekki orðið. Síðan hafa bæði ríkin ýmist sett á farbönn eða rekið íbúa hvors annars úr landi.

Forsætisráðherra Malasíu segir að nú séu hafnar viðræður milli ríkjanna til að reyna að bæta sambandið.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu telja að Kim Jong-un hafi fyrirskipað morðið á hálfbróður sínum. Kim Jong-nam er eldri bróðir Kims Jong-un og af mörgum, m.a. Kínverjum, talinn réttmætur arftaki föður þeirra, Kims Jong-il.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert