20 ára aðgerðir gegn N-Kóreu mistekist

Rex Tillerson ásamt Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japans.
Rex Tillerson ásamt Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japans. AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að tveggja áratuga tilraunir til að stöðva Norður-Kóreumenn í þróun kjarnorkuvopna hafi ekki borið árangur og prófa þurfi nýjar aðferðir í þeim efnum.

„Það er mikilvægt að átta sig á því að pólitískar aðgerðir og samningaleiðir undanfarin 20 ár til að fá Norður-Kóreu til að hætta þróun kjarnorkuvopna hafa mistekist,“ sagði hann á blaðamannafundi með utanríkisráðherra Japans.

„Í ljósi vaxandi ógnar er ljóst að þörf er á nýrri aðferðafræði.“

Tillerson bætti við að Bandaríkin mundu halda áfram að starfa náið með Japan og Suður-Kóreu í að takast á við ógnina í Norður-Kóreu.

„Norður-Kórea og almenningur þarf ekki að óttast Bandaríkin eða nágranna sína,“ tók hann fram.

Ráðherrann hvatti einnig Kína, sem hann heimsækir á laugardaginn, til að setja meiri þrýsting á Norður-Kóreu vegna tilrauna þeirra með kjarnorkuvopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert