Árásarmaðurinn 17 ára gamall

Lögregla að störfum skammt frá skólanum í Grasse.
Lögregla að störfum skammt frá skólanum í Grasse. AFP

Að minnsta kosti tveir eru særðir eftir skotárás í franska bænum Grasse í dag. 17 ára drengur hefur verið handtekinn í tengslum við málið en annar ungur maður er sagðu á flótta undan lögreglu.

Greint er frá þessu á vef BBC.

Þar kemur fram að vopnaður maður hafi ráðist á Tocqueville skólann í morgun. Hryðjuverkalögregla er á staðnum og þá hafa stjórnvöld varað íbúa á svæðinu við árásinni í gegnum sérstakt smáforrit. Samkvæmt frétt AFP hefur öllum skólum á 40 kílómetra svæði vestan við Nice verið lokað vegna árásarinnar. 

Grasse er í Suður-Frakklandi.
Grasse er í Suður-Frakklandi. Skjáskot/Google Maps

AFP vitnar í yfirlýsingu frá bæjaryfirvöldum í Grasse þar sem fram kemur að tveir nemendur við skólann hefðu hafið skothríð á yfirkennara skólans sem særðist. Reuters heldur því fram að sá handtekni sé 17 ára gamall. Hann er ekki þekktur innan lögreglunnar á svæðinu en var vopnaður riffli, tveimur skammbyssum og tveimur handsprengjum þegar hann var handtekinn. 

Þá er vitnað í bæjarstjóra Grasse sem segir að talið sé að skotmark árásarmannana hafi verið bekkjarfélagi þeirra.

Neyðarlög hafa verið í gildi í Frakklandi síðan að hryðjuverkaárásir voru gerðar í París í nóvember 2015 en þá voru 130 manns drepnir af hryðjuverkamönnum Ríkis íslams.  

Grasse er í Suður-Frakklandi, í um 43 kílómetra fjarlægð frá Nice.

Frá vettvangi í Grasse.
Frá vettvangi í Grasse. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert