„Dauðinn eltir okkur“

Sham er 10 ára gömul. Hún er flóttamaður frá Sýrlandi.
Sham er 10 ára gömul. Hún er flóttamaður frá Sýrlandi. Unicef.

Sham er tíu ára sýrlensk stúlka sem býr í Misrata í Líbýu ásamt foreldum sínum og yngri bróður, Balal, sem er fimm ára. Sham á erfitt með mál því orð hennar drukknuðu í hafinu við Líbýu ásamt bróður hennar, Talal, sem drukknaði þegar þau reyndu að flýja yfir Miðjarðarhaf. „Hvert sem við fórum þá elti dauðinn okkur,“ segir faðir hennar, Mahmoud.

Francesca Mannocchi fjallar um fjölskylduna í grein sem Unicef birtir. Mannocchi er ítalskur blaðamaður en hún hefur sérhæft sig í skrifum um málefni flóttamanna. Skrif hennar hafa birst víða og í fyrra hlaut hún æðstu viðurkenningu ítalskra blaðamanna, Premiolino.

Árið 2014 flúði fjölskyldan frá höfuðborg Sýrlands, Damaskus. Mahmoud segir að þau hafi í fyrstu verið á vergangi í heimalandinu. Í leit að öruggum stað en enginn slíkur staður fannst í Sýrlandi. „Þannig að ég ákvað að það væri tímabært að reyna að komast til Evrópu,“ segir hann.

„Og við vorum fimm“

Í Damaskus starfaði Mahmoud sem smiður og þrátt fyrir að hafa ekki haft háar tekjur lifðu þau með sæmd. „Þegar þú ert fátækur þá getur þú ekki valið þér flóttaleið. Eina leiðin til þess að flýja er að eyða eins litlu og mögulegt er. Og við vorum fimm,“ segir hann.

Mágur hans bjó um tíma í Benghazi í austurhluta Líbýu. Fjölskyldan fékk hjá honum nafn á manni sem gæti aðstoðað Mahmoud og fjölskyldu hans við að fá pláss um borð í báti sem færi yfir Miðjarðarhafið.

„Smyglararnir hétu því að þeir myndu útvega bát, björgunarvesti og koma okkur með öruggum hætti til Evrópu,“ segir Mahmoud.

Hans draumur var að draumur barna hans yrði að veruleika. Að þau fengju tækifæri til þess að mennta sig í Evrópu. En sá draumur varð ekki að veruleika.

Eitt herbergi og engin kynding

Mahmoud starfar sem smiður í Misrata og  fer eldsnemma út á hverjum morgni og gengur nokkra kílómetra í vinnuna. Bíll fjölskyldunnar er bilaður og þau hafa ekki ráð á því að láta gera við hann. 

„Stundum finnst mér að það væri bara betra að deyja en að búa við þessar aðstæður,“ segir hann þar sem hann situr fyrir utan húsið sem fjölskyldan býr í. Það er enginn hiti í húsinu, sem er eitt herbergi og bað. 

Fouzieh, eiginkona Mahmouds, er 39 ára. Það fer ekki á milli mála að hún syrgir, allar hreyfingar hennar eru hægar og andlitið er rúnum rist. Hún hefur upplifað of mikið, segir í greininni.

Á hverju ári deyja þúsundir á flótta yfir Miðjarðarhafið.
Á hverju ári deyja þúsundir á flótta yfir Miðjarðarhafið. AFP

„Þegar við komum til Líbýu vonaði ég svo innilega að þetta væri síðasti leggurinn á leið okkar áður en við kæmum til Ítalíu,“ segir Fouzieh. En þau neyddust til þess að bíða. Smyglararnir héldu þeim innilokuðum í 15 daga í húsi skammt frá sjónum. „Þeir sögðu okkur að þeir væru að bíða eftir því að veðrið myndi skána. En veðrið var gott og herbergið hélt áfram að fyllast af fólki,“ bætir hún við.

Eftir því sem dagarnir liðu varð ljóst að það var ekki veðrið heldur væru þeir að safna saman sem flestu fólki svo þeir myndu græða meira. Smyglararnir réttu af og til mat og vatn til fólksins sem þeir héldu föngnu á bak við rimla. Stundum smá ostbita, stundum myglað brauð.

Fouzieh minnist loftleysisins, slagsmálanna um brauðmola og að hún hafi ekki borðað neitt. Matinn sem þau náðu fengu börnin þrjú.

En eina nóttina komu smyglararnir og sóttu hópinn, 20-30 manns. Fólkinu var gert að fara um borð í litlar gúmmítuðrur sem áttu að flytja þær að stórum trébát. Fouzieh segir að hún hafi fyllst skelfingu og ekki viljað leggja af stað. Hún hafi öskrað og þá kom einn smyglaranna og dró hana og börnin um borð í einn bátanna. Um borð í stóra bátnum varð stéttskiptingin um borð fljótt ljós. Sýrlendingar eins og þau fengu að vera uppi á dekki og þau fengu björgunarvesti enda borguðu þau mest. Hins vegar hafi fjölmargir afrískir drengir og stúlkur þurft að hírast neðan þilja. Þau fengu engin björgunarvesti og var staflað upp í loftlausu rými. Fljótlega eftir að siglingin hófst fór vatn að leka inn. 

Damaskus í gær, sex árum eftir að stríðið hófst.
Damaskus í gær, sex árum eftir að stríðið hófst. AFP

Fouzieh gleymir aldrei ópum fólksins neðan þilja. Þau æptu að þau væru hrædd og vildu ekk deyja. Þau æptu hærra og hærra en smyglarinn sem stýrði bátnum hlustaði ekki á þau. Þegar ljóst var að báturinn myndi sökkva hafði smyglarinn samband við félaga sína sem komu og sóttu hann en aðrir voru skildir eftir um borð. 

Hún féll frá borði með son sinn, Balal, í fanginu. Fouzieh hafði ekki hugmynd um hvernig hún átti að bregðast við. En reyndi að halda syni sínum á floti. Lífsbaráttan stóð alla nóttina og þegar Balal sofnaði þá sló hún hann í andlitið. Þegar hún sá eitthvað á floti í sjónum hélt hún að þetta væri teppavafningur sem hún gæti hangið á en þegar hún greip um vafninginn kom í ljós að þetta var lík. Mörgum klukkustundum síðar var henni og Balal bjargað af líbýsku strandgæslunni. Síðar um daginn urðu fagnaðarfundir þegar hún fann eiginmann sinn og dóttur en honum hafði tekist að halda henni á lífi í sjónum. En sonur þeirra Talal fannst ekki strax. 

AFP

Þeirra versta martröð varð að veruleika. Sonur þeirra Talal var látinn en lík hans fannst á reki í sjónum. Fouzieh hefur ekki séð hafið síðan þessa örlagaríku nótt. Hún er sannfærð um að sonur hennar hafi verið drepinn af einhverjum öðrum flóttamanni sem hafi tekið hann úr vestinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert