Telja árásina ekki tengda hryðjuverkum

„Þetta var eins og í bíómynd. Við erum ekki vön …
„Þetta var eins og í bíómynd. Við erum ekki vön þessu, við heyrum af svona hlutum í París en ekki hér,“ hefur sjónvarpsstöðin BFM eftir Andreas, nemanda við skólann. „Ég var alveg skelfingu lostinn.“ AFP

Að minnsta kosti þrír eru særðir eftir að þungvopnaður 17 ára drengur hóf skothríð í frönskum skóla í morgun. Drengurinn var handtekinn stuttu síðar, vopnaður riffli, tveimur skammbyssum og tveimur handsprengjum.

Árásin átti sér stað í Tocqueville skólanum í bænum Grasse í suðurhluta Frakklands.

AFP hefur eftir fulltrúa sveitarstjórnar á svæðinu, Christian Estrosi, að árásin sé á „engan hátt“ tengd hryðjuverkum á þessu stigi og að þær særðu, tveir nemendur og skólastjórinn, hafi ekki særst alvarlega.

Því var fyrst haldið fram eftir árásina að gerendurnir hefðu verið tveir og að annar þeirra væri á flótta undan lögreglu. Nú halda franskir miðlar því fram að árásarmaðurinn hafi verið einn á ferð.

Lögreglumenn að störfum fyrir utan skólann.
Lögreglumenn að störfum fyrir utan skólann. AFP

„Þetta var eins og í bíómynd. Við erum ekki vön þessu, við heyrum af svona hlutum í París en ekki hér,“ hefur sjónvarpsstöðin BFM eftir Andreas, nemanda við skólann. „Ég var alveg skelfingu lostinn.“

Neyðarlög sem voru sett á í Frakklandi eftir hryðjuverkaárásina í París í nóvember 2015 þegar að 130 létu lífið eru enn í gildi. Það stóð til að aflétta þeim nokkrum dögum áður en önnur árás var framin, þá í Nice sem er aðeins í um 40 kílómetra fjarlægð frá Grasse í júlí á síðasta ári.l

Mikil pólitísk spenna er í Frakklandi um þessar mundir en aðeins 40 dagar eru í fyrstu umferð forsetakosninga í landinu. Í frétt AFP kemur fram að frambjóðendur leggi sérstaklega áherslu á öryggismál í herferðum sínum.

Ástæða árásarinnar í morgun liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Árásir í skólum eru ekki algengar í Frakklandi en síðasta alvarlega árásin í skóla átti sér stað árið 2012 þegar að íslamskur öfgamaður frá Toulous skaut þrjú börn til bana og kennara í skóla fyrir Gyðinga í borginni. Það var síðan árið 1984 sem 15 ára nemandi skaut kennara til bana í bænum Castres áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert