Facebook-nauðgarar ákærðir

AFP

Þrír menn hafa verið ákærðir fyrir að hafa nauðgað konu í íbúð í Uppsala í Svíþjóð og streymt ofbeldinu beint á Facebook.

Mennirnir voru handteknir í janúar eftir að lögreglu var bent á útsendinguna á Facebook.

Tveir mannanna eru frá Afganistan, annar 18 ára og hinn 21 árs, og eru ákærðir fyrir nauðgun en sá þriðji, 24 ára Svíi, er ákærður fyrir að tilkynna ekki um nauðgunina. Eins fyrir ærumeiðingar og að hafa tekið ofbeldið upp og streymt því á netinu. Þremenningarnir neita allir sök.

Rannsóknarlögreglan hefur undir höndum stillimyndir og myndskeið en ekki allt myndefnið þar sem nauðgunin sjálf er sýnd, þrátt fyrir að eftir því hafi verið óskað við Facebook í Bandaríkjunum. Lögmaður yngsta mannsins gagnrýnir að ákæra sé lögð fram áður en búið er að skoða allt myndefnið.

Lögmaðurinn, Henrik Stolare, segir að það sé óheppilegt að ákæran sé lögð fram áður en saksóknari hefur fengið allt myndefnið sent frá Facebook. Erfitt sé fyrir héraðsdóm að taka ákvörðun um dóm án þess að myndefnið liggi fyrir.

Héraðssaksóknari í Uppsala, Pontus Melander, segir að eðlilegt sé að ákæra mennina þrátt fyrir að myndefnið hafi ekki fengist. Allt hafi verið gert til þess að fá það hjá Facebook án árangurs. Alls hafa átta vitni stigið fram sem sáu alla útsendinguna eða stóran hluta hennar.

Frétt Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert