Fann kettlinga í ferðatösku

Kettlingarnir átta kúra saman í dýraathvarfinu.
Kettlingarnir átta kúra saman í dýraathvarfinu.

Kona sem var úti að ganga með hundinn sinn á afskekktu svæði í Halstead í Essex á Englandi, gekk fram á gamla ferðatösku á lestarteinum. Hún ætlaði ekki að skipta sér af þessari tösku en þá fór hundurinn hennar að þefa mikið af henni.

Konan stoppaði af þeim sökum og heyrði allt í einu veikt mjálm koma úr töskunni. Hún opnaði hana og í ljós kom læða og átta kettlingar hennar.

Í fréttum ITV og The Dodo um málið segir að kettlingarnir hafi allir verið vannærðir og læðan var með vökvaskort. Konan tók alla kettina heim til sín og hringdi í næsta dýraathvarf og bað þá að taka fjölskylduna upp á sína arma. Læðan, sem fengið hefur nafnið Tarini, þurfti að fara í heimsókn til dýralæknisins og var þar sett á gjörgæslu. Kettlingarnir fóru hins vegar beint í athvarfið. Eftir að læðan hafði fengið vökva í æð. Hún var svo flutt aftur til kettlinganna sinna. 

Kettlingarnir voru aðeins fimm vikna gamlir. Þeir komust fljótt til góðrar heilsu. 

Í frétt The Dodo segir að kettlingarnir séu enn of ungir til að fá ný heimili. En bráðum kemur að því og þá mun starfsfólk dýraathvarfsins velja bestu mögulegu eigendurna.

Enn er ekki vitað hvaðan kettirnir komu og hefur dýraathvarfið auglýst eftir vísbendingum um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert