„Popúlismanum hafnað“

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, segir að Hollendingar hafi hafnað popúlisma, en hann fagnaði sigri í þingkosningunum í gær. Flokkur hans, frjálslyndi hægriflokkurinn VVD, er með 33 þingsæti af 150 þegar rúmlega 90% atkvæða hafa verið talin. Þrátt fyrir að fá flest atkvæði tapar flokkurinn átta þingsætum.

Frelsisflokkurinn (PVV) sem hefur mælst stærsti flokkur Hollands undanfarna mánuði fær 20 þingmenn sem er fjölgun um fimm. Formaður PVV, Geert Wilders, vill banna sölu á Kóraninum, loka moskum og íslömskum skólum, taka upp landamæraeftirlit og banna múslimum að setjast að í landinu.

Kristilegir demókratar (CDA) eru einnig með 20 þingmenn og frjálslyndir demókratar (D66) fylgja fast á eftir með 19 þingsæti. Vinstri grænir auka mjög fylgi sitt og fá 14 þingsæti sem er aukning um 10 þingsæti.

Verkamannaflokkurinn (PvdA), sem situr í núverandi ríkisstjórn, galt afhroð en flokkurinn fékk aðeins 9 þingmenn kjörna og tapar 29.

Kjörsókn var mjög mikil miðað við venjulega eða yfir 80% og er það mesta kosningaþátttaka í Hollandi í 30 ár. Er talið að það hafi komið sér vel fyrir flokka sem styðja áframhaldandi veru Hollands í Evrópusambandinu. 

Mjög var horft til kosninganna í Hollandi varðandi stuðning við þjóðernishyggju í Evrópu en slíkir flokkar hafa aukið mjög vinsældir sínar undanfarin ár. Þrátt fyrir að hafa ekki fengið flest atkvæði segir Wilders að „þjóðernisvorið“ væri á leiðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert