Ekkert þjóðaratkvæði fyrr en 2023

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands. AFP

Þjóðaratkvæði um hvort Skotland skuli verða sjálfstætt ríki fer í fyrsta lagi fram eftir sex ár. Þetta eru skilaboð Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, til Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands, en sú síðarnefnda hefur farið fram á heimild til þess að halda slíkt þjóðaratkvæði í annað sinn. Það fyrsta fór fram 2014 og var sjálfstæði þá hafnað.

Til þess að halda þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands þarf Sturgeon samþykki breska þingsins lögum samkvæmt en meirihluti þingmanna tilheyra Íhaldsflokknum sem May fer fyrir. May telur ekki rétt að slíkt þjóðaratkvæði fari fram fyrr en fyrir liggur hvernig tengsl Bretlands við Evrópusambandið verða eftir úrsögnina landsins úr því og reynsla er komin á þau.

May vísar þar í helstu rök Sturgeon fyrir nýju þjóðaratkvæði sem eru þau að Bretland sé á leið úr Evrópusambandinu þvert á vilja meirihluta Skota og fyrir vikið hafi forsendur breyst. Samþykkt var í þjóðaratkvæði í Bretlandi síðasta sumar að segja skilið við sambandið en meirihluti var hins vegar fyrir áframhaldandi veru í sambandinu á meðan Skota.

Gert er ráð fyrir að Bretland segi skilið við Evrópusambandið árið 2019 en May vill að þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands fari fram eftir skosku þingkosningarnar 2021. Þar með fái Sturgeon tækifæri til þess að sýna fram á að hún hafi ótvíræða heimild til þess að óska effir nýju þjóðaratkvæði, en kannanir sýna að meirihluti Skota vill ekki kjósa að nýju.

Sturgeon hafði áður farið fram á það að þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands færi fram einhvern tímann á tímabilinu frá haustinu 2018 til vorsins 2019. Hún kallar ákvörðun May „lýðræðislegt hneyksli“ og segist staðráðin í því að halda þjóðaratkvæði á umræddu tímabili. Verði óskinni formlega hafnað muni hún skoða alla möguleika til að bregðast við því.

Gangi Bretland úr Evrópusambandinu árið 2019 er gert ráð fyrir að tvö ár þurfi til þess að reynsla komist á það hversu vel Bretum vegni utan sambandsins. Þá þurfi eitt og hálft ár til þess að ganga frá formsatriðum vegna mögulegs þjóðaratkvæðis áður en það geti farið fram. Fyrir vikið kæmi sennilega ekki til slíkrar kosningar fyrr en í fyrsta lagi árið 2023.

Vegna þess er alls óvíst hvort til þjóðaratkvæðis um sjálfstæði Skotlands kunni að koma enda óvíst hvort Skoski þjóðarflokkurinn, flokkur Sturgeons, fái nægjanlegan stuðning til þess að halda málinu til streitu í þingkosningunum 2021. Bent er á að flokkurinn mæti þegar mikilli gagnrýni í ýmsum málum heimafyrir vegna stefnu hans í innanlandsmálum.

Fréttavefur Daily Telegraph greinir frá þessu.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert