Hægri og vinstri að líða undir lok

Frakkar kjósa sér nýjan forseta í vor.
Frakkar kjósa sér nýjan forseta í vor. AFP

Frakkar kjósa sér nýjan forseta eftir rúman mánuð og er sitjandi forseti, sósíalistinn François Hollande, ekki í framboði. Þetta er í fyrsta skipti frá stríðslokum sem Frakklandsforseti býður sig ekki fram til endurkjörs. Ákvörðun Hollande kemur ekki á óvart enda með eindæmum óvinsæll í embætti.

En það sem hefur einkennt kosningabaráttuna undanfarnar vikur eru hneykslismál. Allt frá því að snúast um ferð til Las Vegas í fjársvik. Minna hefur borið á umræðu um fyrir hvað forsetaframbjóðendurnir standa enda hafa þeir vart undan að svara ásökunum um svik og svindl af ýmsum toga. Er kannski tími hægri vinstri í frönskum stjórnmálum liðinn?

Frambjóðandi En Marche !, Emmanuel Macron.
Frambjóðandi En Marche !, Emmanuel Macron. AFP

Allt bendir til þess að miðjumaðurinn Emmanuel Macron, sem býður sig fram í nafni En Marche -Hreyfingarinnar, verði kjörinn forseti en í stjórnmálum getur ýmislegt gerst á rúmum mánuði líkt og dæmin sanna.

Þegar kosningabaráttan hófst fyrir alvöru var François Fillon, frambjóðandi les Républicains - Repúblikanaflokksins, talinn nánast öruggur um að verða fyrir valinu í forsetakosningunum. Þegar ádeiluritið Le Can­ard Enchaîné  birti undir lok janúar frétt um að eiginkona Fillon, Penelope, hafi fengið greiddar fleiri hundruð þúsund evrur fyrir að aðstoða eiginmann sinn í franska þinginu og ekki nóg með það heldur fengu börn þeirra hjóna greiðslur fyrir að gera mest lítið, ef marka má fréttir af peningagreiðslunum, hrundi af honum fylgið. 

Frambjóðandi Front National, Marine Le Pen.
Frambjóðandi Front National, Marine Le Pen. AFP

Fillon, sem hefur verið stjórnmálamaður í 35 ár og er mikill aðdáandi Margret Thatcher, reyndi af veikum mætti að andmæla ásökunum án árangurs. Sprengjan var fallin og fræi grunsemda sáð. Fillon, sem er boðberi sparnaðar í ríkisrekstri og vildi fækka opinberum starfsmönnum verulega  yrði hann kjörinn forseti, þurfti að horfa upp á Macron skjótast í fyrsta sætið í skoðanakönnunum.

Fillon hefur verið ákærður ákærður formlega  fyrir að hafa misfarið með almannafé. Penelope Fillon er sögð hafa fengið greiddar 680 þúsund evrur (79,4 milljónir króna) á fimmtán ára tímabili þegar hún var aðstoðarmaður hans. Tvö börn þeirra fengu einnig samtals 84.000 evrur fyrir aðstoð við hann sem þingmann. Franskir þingmenn mega ráða eiginkonu sína og börn sem aðstoðarmenn en kona Fillons er sökuð um að hafa fengið féð án þess að hafa starfað fyrir hann. Hún er einnig sögð hafa fengið laun sem ráðgjafi bókmenntatímarits í eigu auðugs vinar Fillons án þess að hafa starfað fyrir það.

Frambjóðandi Les Republicains, Francois Fillon.
Frambjóðandi Les Republicains, Francois Fillon. AFP

Þrátt fyrir mikið fylgishrun og harðar ásakanir segir Fillon að ekkert sé hæft í ásökunum á hendur honum. Um lygafréttir sé að ræða og þær séu settar fram til þess eins og koma höggi á hann. Fillon segist finna fyrir auknum stuðningi meðal hægri- og miðju manna sem séu ósáttir við að verið sé að stela kosningunum. 

Ummælin koma ekki á óvart enda lítil umræða um áherslur frambjóðenda en þess meiri um hneyksli þeim tengdum.

Frambjóðandi Sósíalistaflokksins, Benoit Hamon.
Frambjóðandi Sósíalistaflokksins, Benoit Hamon. AFP

Frambjóðandi þjóðernisflokksins Front National - Þjóðfylkingin, Marine le Pen, staðfesti á þriðjudag að hún og faðir hennar, Jean-Marie le Pen, séu til rannsóknar hjá skattayfirvöldum varðandi virði eigna fjölskyldunnar. Þetta er ekki eina málið sem le Pen blandast inn í því fjármögnun framboðs hennar er til rannsóknar og eins er hún sökuð um misnotkun á fé Evrópuþingsins þar sem hún situr sem þingmaður.

Saksóknari í París hefur hafið frumrannsókn á ferð sem Macron fór í til Las Vegas í janúar 2016 er hann gegndi embætti ráðherra. Um viðburð var að ræða til kynningar á frönskum hátæknifyrirtækjum en kostnaðurinn við ferðina, sem ríkissjóður greiddi, þykir óheyrilegur. Ferðin kostaði skattgreiðendur 400 þúsund evrur og var ekki um útboð að ræða heldur var almannatengslafyrirtækið Havas fengið til að skipuleggja uppákomuna. 

AFP

Le Can­ard Enchaîné greindi fyrst frá þessu en í frétt blaðsins kemur fram að bara hótelkostnaðurinn hafi numið 100 þúsund evrum. Nokkrir af félögum Macron starfa hjá Havas. 

„Kosningabaráttunni hefur verið stolið,“ segir Eric Ciotti, þingmaður repúblikana, flokki Fillon. Hann lét þessi ummæli falla í viðtali við BFM sjónvarpsstöðina í gærkvöldi er hann kom flokksbróður sínum til varnar.

Vísar hann til þess að Fillon er kominn niður í þriðja sæti í skoðanakönnunum og Macron, sem hvorki kannast við vinstri eða hægri, nýtur góðs af. Allar líkur eru á að hvorki hann né le Pen, sem er með svipa fylgi og Macron, fái meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni 23. apríl og því þurfi að kjósa á milli þeirra 7. maí. 

AFP

Hefð er fyrir því að annað hvort frambjóðandi sósíalista eða hægri manna skipi embætti forseta Frakklands en lítið hefur farið fyrir frambjóðanda fyrrnefnda flokksins í ár, Benoît Hamon. Sem vekur kannski ekki mikla furðu enda núverandi forseti sá óvinsælasti í manna minnum. Margir af þungavigtarmönnum innan Sósíalistaflokksins ætla að styðja Macron í kosningunum. Meðal annars fyrrverandi borgarstjóri Parísar sem naut mikils stuðnings í starfi langt út fyrir flokkslínur.  Macron sat um tíma í ríkisstjórn Frakklands sem ráðherra efnahagsmála án þess þó að vera flokksmaður í Sósíalistaflokknum. 

Í vikunni tilkynnti Manuel Valls, sem var forsætisráðherra sósíalista þangað til í desember, að hann ætlaði ekki að styðja við hugmyndir Hamon varðandi skatta og ríkisútgjöld. „Ég er trúr fjölskyldu minni í stjórnmálum og ég er ekki að yfirgefa Sósíalistaflokkinn. En ef ég styddi þessar hugmyndir þá sviki ég öll loforð mín í stjórnmálum og það get ég ekki réttlætt,“ segir Valls sem þykir frjálslyndur vinstrimaður ólíkt Hamon sem þykir mjög til vinstri. 

Valls neitar því hins vegar að hann ætlaði að koma fram opinberlega sem stuðningsmaður Macron. 

AFP

Hægri og vinstri er ekki það eina sem er á undanhaldi í frönskum stjórnmálum því kjósendur gefa lítið fyrir lýðræðið í Frakklandi.

Kannanir sýna að kjósendur eru búnir að fá sig fullsadda af getuleysi stjórnmálamanna við að leysa úr alvarlegum vandamálum sem hrjá franskt efnahagslíf - mikið atvinnuleysi og lítinn hagvöxt. Eins óttast margir áhrif alþjóðavæðingar. Þeir sem eru ósáttir vilja leita annað en þeir hafa gert hingað til og hafa því hætt að styðja tvo helstu stjórnmálaflokka landsins, repúblikana og sósíalista. 

„Frakkland er komið að endamörkum stjórnmála skipulags sem hefur verið við lýði síðan á níunda áratugnum,“ segir stjórnmálafræðingurinn Jérôme Sainte-Marie. 

Hann segir að nú vilji fólk breytingar í pólitísku landslagi og þá ekki síst vegna efnahagsástandsins. Fyrir fimm árum höfnuðu kjósendur Nicolas Sarkozy, þáverandi forseta repúblikana (þá hét flokkurinn UMP) og völdu þess í stað Hollande í þeirri von að ástandið myndi batna við það. Ekkert bendir til þess að þeim hafi orðið að ósk sinni og því eru það frambjóðendur annarra flokka, miðjuflokks og þjóðernisflokks, sem keppa um hylli kjósenda. 

Nýleg skoðanakönnun sýnir að 36% kjósenda telja að le Pen hafi nýjar hugmyndir fram að færa til þess að bæta úr vandamálum Frakklands. Hún er mun vinsælli heldur en faðir hennar var en hann komst þrátt fyrir það í eitt skipti í seinni umferð forsetakosninganna. 

AFP

Sagnfræðingurinn Pierre Rosanvallon skrifar í Le Monde nýverið að Frakkland sé að breytast - popúlismi sæki á kostnað hefðbundinna flokka. 

Í svipaðan streng tekur Sainte-Marie en hann segir að klofningurinn snúist ekki lengur um hægri eða vinstri heldur alþjóðavæðingu. Þeir sem kjósi alþjóðavæðingu gefi Macron atkvæði sitt en þeir sem tapa á alþjóðavæðingu greiða le Pen atkvæði. Framboð le Pen er á sama máli. Macron, sem er sterkefnaður og fyrrverandi bankamaður sé fulltrúi alþjóðavæðingar á meðan hún sé fulltrúi föðurlandsvina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert