„Við erum öll heppin að vera á lífi“

Ungur drengur freistaði þess að fá Vilhjálm til að svara …
Ungur drengur freistaði þess að fá Vilhjálm til að svara því hvað honum fyndist um Brexit, en hafði ekki erindi sem erfiði. AFP

„Þið eruð öll afar hugrökk, þið ættuð að vera stolt af ykkur,“ sagði Vilhjálmur Bretaprins þegar hann og eiginkona hans Katrín Middleton heimsóttu eftirlifendur hryðjuverkaárásarinnar í París í nóvember 2015.

Hertogahjónin hittu fólkið á hersjúkrahúsi í borginni en um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn þeirra til Parísar frá því að móðir Vilhjálms, Díana, lést þar í bílslysi fyrir 20 árum.

Vilhjálmur og Katrín voru augljóslega snortin þegar þau ræddu við hina 25 ára Jessicu Bambal Akan, sem slasaðist alvarlega þegar hryðjuverkamenn létu til skarar skríða í austurhluta Parísar.

Akan, sem notar hjólastól vegna meiðsla sinna, var að fagna 24 ára afmæli sínu ásamt þremur vinum á veitingastaðnum Belle Equipe þegar árásarmennirnir létu kúlum rigna yfir staðinn. Akan fékk kúlur í annan fótinn, mjöðmina og bakið.

„Við erum öll heppin að vera á lífi,“ sagði hún við hertogahjónin. Þá benti hún á Chanel-kjól Katrínar og sagðist ákveðin í því að starfa við tísku í framtíðinni, þrátt fyrir meiðslin sem hún hlaut.

„Ég er metnaðargjörn. Ég er enn metnaðargjörn. Ég þarf að lifa og starfa. Ég vil sýna þessum mönnum að þeir geta ekki sigrað,“ sagði hún.

Hjónin heimsóttu m.a. Musee d’Orsay.
Hjónin heimsóttu m.a. Musee d’Orsay. AFP

Slökkviliðsmaður að nafni Kevin lýsti því hvernig hann hefði verið á tónleikum í Bataclan-tónleikasalnum þegar hann heyrði byssuskot.

„Þeir hófu að öskra yfir áhorfendur og skjóta,“ sagði hann. „Hver sem öskraði var skotinn, þannig að ég reyndi að vera eins hljóðlátur og ég gat. Ég fékk tvö skot í fótinn en ég lá þarna og þagði.“

90 létust í Bataclan.

Vilhjálmur sagði fólkinu að það hefði sýnt mikið hugrekki. Að heimsókninni lokinni héldu hann og Katrín á Musee d'Orsay og þaðan í Trocadero-bygginguna.

Þar spurði ungur drengur hvað prinsinum þætti um Brexit. Vilhjálmur hélt sig við þá reglu að konungsfjölskyldan tjáir sig ekki um pólitík og svaraði brosandi: „Ég get ekki svarað þeirri spurningu, en góð tilraun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert