ESB klárt í slaginn en samt ekki

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Evrópusambandið er fyllilega undirbúið fyrir viðræður við bresk stjórnvöld um úrsögn Bretlands úr sambandinu.

Þetta sagði Margaritis Schinas, talsmaður Jean-Claudes Junckers, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í dag í kjölfar þess að tilkynning barst frá bresku ríkisstjórninni um að formlegt úrsagnarferli Bretlands hæfist 29. mars.

„Allt er tilbúið hérna megin,“ er haft eftir Schinas í frétt AFP. „Við vorum upplýst um þetta fyrir fram. Við erum reiðubúin að hefja viðræðurnar. Við erum að bíða eftir bréfinu [frá bresku ríkisstjórninni]. Nú vitum við að það mun koma þann 29.“

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Donald Tusk, sagði á Twitter að innan 48 klukkustunda frá því að úrsagnarferlið hæfist, með því að breskir ráðamenn virkjuðu grein 50 í Lissabon-sáttmála sambandsins, myndi hann leggja fram uppkast að stefnumörkun vegna úrsagnar Breta fyrir aðildarríkin að undanskildu Bretlandi.

Engu að síður er talið að eiginlegar viðræður hefjist ekki fyrr en eftir 6-8 vikur. Fyrst þurfa leiðtogar ríkja Evrópusambandsins að hittast og samþykkja sameiginlega stefnu gagnvart útgöngu Bretlands sem sennilega fer ekki fram fyrr en í maí.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun síðan leggja formlega til að viðræður verði hafnar við Breta. Sú tillaga þarf samþykki allra ríkja sambandsins fyrir utan Bretland og verði það fengið fær aðalsamningamaður þess loks umboð til þess að hefja viðræðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert