Fylgið hrynur af Trump

Fylgið fellur af forseta Bandaríkjanna.
Fylgið fellur af forseta Bandaríkjanna. AFP

Aðeins 37% bandarísku þjóðarinnar eru sátt við störf Donald Trump Bandaríkjaforseta, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Í síðustu viku naut hann stuðnings 45% þjóðarinnar. 58% Bandaríkjamanna eru ósátt við störf forsetans hingað til eða frá því hann tók við embætti forseta 20. janúar.

Um er að ræða símakönnun og tóku 1.500 manns þátt. Forveri Trump í starfi, Barack Obama, naut yfirleitt ekki stuðnings nema tæplega 50% þjóðarinnar.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Könnun Gallup var gerð skömmu eftir að repúblikanar kynntu áætlun sína um að fella niður núverandi heilbrigðiskerfi, Obamacare. 

Fjárlagaskrifstofa Bandaríkjaþings hefur komist að þeirri niðurstöðu að tillögur leiðtoga Repúblikanaflokksins í heilbrigðismálum verði til þess að þeim landsmönnum, sem eru án sjúkratryggingar, fjölgi um 24 milljónir á tíu árum. Talið er að niðurstöður hagfræðinga fjárlagaskrifstofunnar minnki líkurnar á því að tillögurnar nái fram að ganga á þinginu.

Tillögurnar njóta stuðnings Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem lofaði því fyrir kosningarnar í nóvember að afnema heilbrigðislöggjöf, sem hefur verið kennd við Barack Obama og kölluð Obamacare. Áætlað er að með Obama-lögunum hafi um 20 milljónir fullorðinna og þrjár milljónir barna fengið sjúkratryggingar. Löggjöfin varð hins vegar til þess að iðgjöldin hækkuðu verulega og leiddi til aukins kostnaðar fyrir tryggingataka og ríkið sem niðurgreiðir tryggingarnar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hét því fyrir kosningarnar að afnema Obama-lögin án þess að fjölga þeim sem væru án sjúkratryggingar. Hann lofaði því að gera heilbrigðiskerfið ódýrara og betra fyrir alla Bandaríkjamenn. Fjárlagaskrifstofan telur þó að tillögur leiðtoga Repúblikanaflokksins verði til þess að þeim sem eru án sjúkratryggingar fækki um fjórtán milljónir á næsta ári og 24 milljónir á áratug.

Gangi spá hagfræðinga skrifstofunnar eftir verða 52 milljónir Bandaríkjamanna án sjúkratryggingar árið 2026, eða um einn af hverjum fimm íbúum landsins. Tíundi hver íbúi er án sjúkratryggingar nú og hlutfallið var einn á hverja sex íbúa áður en Obama-lögin voru samþykkt árið 2010, að sögn dagblaðsins The Washington Post.

Hagfræðingar fjárlagaskrifstofu þingsins telja að nýju tillögurnar verði til þess að iðgjöld vegna sjúkratrygginga hækki að meðaltali um 15-20% til ársins 2020 en byrji þá að lækka. Meðaliðgjöldin verði um 10% lægri árið 2026 en nú.

Iðgjöldin hækka eða lækka mismikið eftir aldri og tekjum tryggingataka og frumvarpið kemur verst niður á eldri borgurum, að sögn fjárlagaskrifstofunnar.

Nái tillögurnar fram að ganga lækka iðgjöld 21 árs manns með 68.200 dollara (7,6 milljóna króna) árstekjur úr 5.100 dollurum í 1.450 dollara (úr 572.000 í 162.000 kr.). Iðgjöld 64 ára manns með sömu árstekjur myndu haldast óbreytt. Iðgjöld 64 ára manns með 26.500 dollara (þriggja milljóna króna) árstekjur myndu hins vegar hækka stórlega, eða úr 1.700 dollurum í 14.600 (úr 190.000 í 1,4 milljónir króna).

Gallup

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert