Höfðu 80 risaeðluegg á brott með sér

Steingert risaeðluegg með steingerðu fóstri.
Steingert risaeðluegg með steingerðu fóstri. Wikipedia/Ryan Somma

Kínversk lögregluyfirvöld hafa handtekið mann sem er grunaður um að hafa stolið tugum steingerðra risaeðlueggja. Margra eggjanna virðist þó enn saknað.

Maðurinn, sem hefur verið kallaður Wang, mun hafa stolið 80 eggjanna frá safnara í Zhejiang aðfaranótt 9. janúar með aðstoð þriggja samverkamanna.

Wang hafði áður heimsótt safnarann og þóst hafa áhuga á að kaupa egginn, að því er Xinhua segir frá.

Hinir grunuðu skiptu eggjunum á milli sín og féllu 27 í hlut Wang. Þau egg fundust þegar Wang var handtekinn í heimabæ sínum í Huanan-sýslu í Heilongjiang-héraði 4. mars.

Lögregla hefur einnig handtekið samverkamenn hans en lögregla hefur ekki gefið upp hvort restin af eggjunum sé komin í leitirnar.

Nærri 17.000 steingerð risaeðluegg hafa fundist í borginni Heyuan frá 1996, þegar börn sem voru að leik fundu nokkra steingervinga. Í desember 2015 skiluðu bandarísk yfirvöld Kína ólöglega innfluttum steingerðum risaeðlubeinum, sem talin eru vera 120 milljóna ára gömul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert