Neita að framselja Tamimi til Bandaríkjanna

Af heimasíðu FBI

Hæstiréttur í Jórdaníu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ahlam Aref Ahmad Al-Tamimi, sem er á lista bandarísku alríkislögreglunnar yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn verði ekki framseld til Bandaríkjanna.

Hæstiréttur staðfesti þar með úrskurð áfrýjunardómstóls í landinu. Tamimi, sem er frá Jórdaníu, var sett á lista bandarískra yfirvalda fyrr í mánuðinum og ákærð fyrir að hafa „skipulagt árás með gereyðingarvopni gagnvart bandarískum ríkisborgurum utan Bandaríkjanna.“

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna heldur því fram að Tamimi hafi verið í för með hryðjuverkamanni úr hryðjuverkasamtökunum Hamas þegar hann sprengdi sprengju falda inni í gítar í Jerúsalem árið 2001. Árásin var gerð inni á Sbarro-pizzastað og 15 létu lífið, þar af tveir Bandaríkjamenn. 122 særðust í árásinni.

Tamimi var handtekin og játaði sök við réttarhöld. Hún hlaut árið 2003 sextánfaldan lífstíðarfangelsisdóm. Henni var síðan sleppt árið 2011 í fangaskiptum ísraelskra yfirvalda við Hamas.

Hún á yfir höfði sér dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi verði hún handtekin, ákærð og dæmd sek í Bandaríkjunum.

Tamimi tók þátt í hryðjuverkaárás í Jerúsalem árið 2001.
Tamimi tók þátt í hryðjuverkaárás í Jerúsalem árið 2001. Af heimasíðu FBI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert