Sprengjuhótun á skrifstofu saksóknara

Sprengjusveitin yfirgefur húsnæði saksóknara í efnahagsbrotum í 9. hverfi í …
Sprengjusveitin yfirgefur húsnæði saksóknara í efnahagsbrotum í 9. hverfi í París. AFP

Rýma þurfti skrifstofu saksóknara efnahagsbrota í París í morgun vegna sprengjuhótunar. Um 100 starfsmenn voru á skrifstofunni. Fyrir tveimur dögum þurfti að rýma annan stærsta flugvöll borgarinnar af ótta við mögulega hryðjuverkaárás. 

Nafnlaust símtal barst til lögreglu um að það væri sprengja í byggingunni sem hýsir skrifstofu saksóknara. Sprengjusveit lögreglunnar var send á staðinn og svæðið í kringum húsið girt af í miðborg Parísar. Engin ummerki um sprengju fundust á staðnum og því var starfsmönnum hleypt aftur inn.

Meðal verkefna sem saksóknari sinnir um þessar mundir eru þau sem tengjast fjármálum François Fillon, frambjóðanda repúblikana, í komandi forsetakosningum en hann er sakaður um að hafa misnotað almannafé í starfi. 

Eins er skrifstofan að rannsaka fjármál annars forsetaframbjóðanda, Marine le Pen, formanns Front National. Hún er sökuð um að hafa skáldað upp störf við Evrópuþingið til þess að hafa fé út úr því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert