Tugir þúsunda á flótta

Írösk kona á flótta með barn sitt frá Mósúl.
Írösk kona á flótta með barn sitt frá Mósúl. AFP

Meira en 180.000 manns hafa flúið vesturhluta írösku borgarinnar Mósúl frá því að stjórnarher landsins hóf baráttu sína við að ná borginni aftur á sitt vald frá vígamönnum Ríkis íslams. 

Um 111 þúsund manns hafa leitað skjóls í sautján flóttamannabúðum í nágrenni borgarinnar. Aðrir hafa fengið inni hjá ættingjum og vinum, að sögn íraskra stjórnvalda. 

Írakar njóta stuðnings bandamanna með Bandaríkin í broddi fylkingar í áhlaupi sínu sem hófst 19. febrúar. Nú er reynt að ná aftur völdum í vesturhluta borgarinnar en stjórnarhernum tókst í janúar að ná völdum í austurhlutanum. Smám saman hefur stjórnarhernum tekist að ná yfirráðum yfir fleiri hverfum. 

Ríkisstjórn Íraks segist geta tekið við um 100 þúsund flóttamönnum til viðbótar í búðum sínum en Sameinuðu þjóðirnar óttast að fjöldi flóttafólks verði mun meiri en sem því nemur. Telur stofnunin að um 300-320 þúsund til viðbótar muni flýja Mósúl á næstu vikum.

Hermaður stjórnarhersins í Mósúl.
Hermaður stjórnarhersins í Mósúl. AFP

Mannúðarsamtök hafa undirbúið aðstoð sína á svæðinu mánuðum saman. Hins vegar er nú ljóst að umfangið er mun meira en þau gátu ímyndað sér.

Þegar stjórnarherinn náði völdum í austurhlutanum var ástandið þannig að fjöldi fólks gat áfram búið á heimilum sínum. Allt önnur staða er uppi í vesturhlutanum. Þaðan flýja nú þúsundir. 

Mósúl er næststærsta borg Íraks. Talið er að um tvær milljónir manna hafi búið þar áður en Ríki íslams hrifsaði þar völd í júní árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert