Brexit mikilvægara en konungdæmið

AFP

Bretar telja útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem nefnd hefur verið Brexit, mikilvægari en að halda Skotlandi áfram innan breska konungdæmisins. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph.

Fram kemur í niðurstöðunum að 60% telji mikilvægara að ganga úr Evrópusambandinu en að koma í veg fyrir að breska konungdæmið liðist í sundur en 27% séu því ósammála. Meirihluti breskra kjósenda kusu með því í þjóðaratkvæði síðasta sumar að segja skilið við sambandið og hafa bresk stjórnvöld síðan unnið að því markmiði.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hefði meirihlutinn kosið með útgöngu úr Evrópusambandinu jafnvel þó hann hefði vitað að það gæti þýtt að Skotland yfirgæfi konungdæmið og yrði sjálfstætt ríki að því er segir í fréttinni.

Þessar tölur benda til þess að breskir kjósendur sjái ekki eftir að hafa kosið með þeim hætti sem þeir gerðu í þjóðaratkvæðinu að því er segir áfram í frétt blaðsins þrátt fyrir umræður undanfarnar vikur um að Skotland gæti yfirgefið breska konungdæmið vegna þess.

Skoskir ráðamenn vilja að kosið verði á ný um mögulegt sjálfstæði Skotlands í þjóðaratkvæðagreiðslu en síðast var það gert 2014 þar sem sjálfstæði var hafnað. Theresa May, færsætisráðherra Bretlands, hefur hafnað því að slík kosning fari fram fyrr en viðræður við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands verður lokið og reynsla komin á hana.

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands, hefur harðlega mótmælt ákvörðun Mays en talið er hugsanlegt að hún muni boða til ráðgefandi þjóðaratkvæðis sem yrði ekki lagalega bindandi til þess að setja þrýsting á ráðamenn í London.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert