Feginn að vera laus við Trump og Pútín

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segir einn helsta kost þess að sitja ekki lengur í embætti að þurfa ekki lengur að hlusta á leynilegar upptökur af samtölum Donald Trump Bandaríkjaforseta.

En til að hafa það á hreinu, þá er hann að grínast.

Ummælin lét Cameron falla þegar hann flutti 94. Ogden fyrirlesturinn um alþjóðleg málefni við Brown University á Rhode Island. Þar kom hann m.a. inn á Brexit, Vladimir Pútín og Trump.

Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði m.a. að þrátt fyrir að 2016 hefið verið árið sem Trump komst til valda og Bretar ákváðu að yfirgefa Evrópusambandið, þyrftu menn að hafa umburðarlyndið að leiðarljósi í stað einangrunarstefnu.

„Þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989 var tilfinningin sú að öll stóru þrætumálin væru útkljáð. Það var augljóst að það vantaði fleiri lýðveldi, aukið lögræði, frjálst framtak, fríverslun, NATO, að við þyrftum að vinna gegn árásargirnd, fjárfesta í Sameinuðu þjóðunum... í dag eru allar þessar spurningar til umræðu,“ sagði hann.

„Forsetinn ykkar er ekki sammála öllu því sem ég hef sagt,“ bætti hann við.

Camron sagði Bandaríkin og Bretland verndara frelsisins, umburðarlyndisins, jafnrétti og réttlæti. Ef menn berðust fyrir þeim yrðu ríkin sannarlega „great again“, sagði hann og vísaði þar í helsta kosningaloforð Trump.

Ráðherrann fyrrverandi sló á létta strengi og sagði að annar léttir væri sá að hann fengi ekki lengur boð um Pútín um að fara með honum á veiðar.

„Mér þykir gaman að ríða út en ég lít ekki alveg jafnvel út skyrtulaus,“ sagði hann og vísaði þar í margfrægar myndir af Pútín berum að ofan.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert