Gaddagildrur á vegi flóttafólks

Íraskur drengur frá Mósúl sem kom ásamt fjölskyldu sinni í …
Íraskur drengur frá Mósúl sem kom ásamt fjölskyldu sinni í Hamam al-Alil flóttamannabúðirnar fyrir utan borgina. AFP

„Það var enginn matur í Mósúl. Ég verð að borða svo ég geti haft hann á brjósti. Að lokum höfðum við aðeins brauð og vatn fyrir hann.“

Þannig lýsa foreldrar hins átta mánaða gamla Firas ástandinu í vesturhluta Mósúl þar sem stjórnarherinn í Írak freistar þess nú að ná völdum að nýju frá Ríki íslams. Þúsundir hafa lagt á flótta úr borginni. Þeirra á meðal foreldrar Firas. Þeir segjast ekki hafa haft neitt val, flótti var eina leiðin til að halda lífi í barninu.

Orrustan um vesturhluta Mósúl hófst um miðjan febrúar. Nokkrum vikum fyrr hafði stjórnarherinn náð völdum í austurhlutanum. Í viku hverri flýja þúsundir. Sameinuðu þjóðirnar búast við því að um 300 þúsund til viðbótar eigi eftir að yfirgefa borgina.

Margar hindranir eru í vegi flóttafólksins sem tekur stefnuna í nokkrar flóttamannabúðir sem ríkisstjórnin og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hafa komið upp. Þær eru nú óðum að fyllast.

Meðal hindrana eru vopnaðir menn og járngaddar sem settir eru á vegina til að sprengja dekk bíla sem reyna að komast tilMósúl. 

Um 180 þúsund íbúar Mósúl hafa flúið heimili sín. Leiðin …
Um 180 þúsund íbúar Mósúl hafa flúið heimili sín. Leiðin í búðirnar er ekki hættulaus. AFP

„Þegar við nálguðumst þann stað sem við töldum öruggan sáum við ljós og heyrðum raddir manna sem báðu okkur að koma nær, þeir sögðust vera í hernum. Þeir voru það ekki. Þetta voru vígamenn sem þóttust vera vinveittir okkur,“ segir Safa sem flúði ásamt eiginmanni sínum og fjórum börnum í síðustu viku. „Þeir skutu tvö börn til bana. Síðar þá tóku nokkrir úr okkar hópi sig til og grófu líkin á staðnum.“

Flóttamannabúðirnar norður og vestur af borginni eru óðum að fyllast. Á meðal þeirra sem komið hafa til þeirra eru hjónin Adil og Hiam ásamt fimm börnum sínum. Þau flúðu heimili sitt eftir að vígamenn ruddust inn í hverfi þeirra og undirbjuggu sig fyrir áhlaup stjórnarhersins. 

„Okkur var skipað að yfirgefa heimili okkar. Þeir vildu koma leyniskyttu fyrir á þakinu,“ segir Adil. Fjölskyldan flúði fyrst til ættingja sinna í nágrenninu en lagði svo um miðja nótt á flótta út úr borginni. 

„Við erum svo fegin að vera komin í búðirnar,“ segir Hiyam. „Við getum ekki farið heim strax, þó að borgin verði frelsuð þá verður hún ekki örugg strax. Faðir minn og bróðir eru enn þarna svo við viljum fara til þeirra. Við vonum að það sé í lagi með þá.“

Tveir synir Alaa og Safa voru með vökvaskort er þeir komu í búðirnar. Þeir köstuðu upp og voru með niðurgang. En fjölskyldan er glöð að vera komin í skjól.

„Við erum ánægð að vera komin hingað,“ segir fjölskyldufaðirinn Alaa. „Við höfum ekki hugmynd um hvort húsið okkar stendur enn. Við munum bíða hér og fylgjast með hvenær óhætt verður að fara aftur heim.“

Brýrnar ónýtar

Orrustan um Mósúl hófst í október. Vígamenn Ríkis íslams höfðu náð henni á sitt vald um mitt ár 2014. Mósúl er næststærsta borg Íraks. Áin Tígris skiptir borginni í tvennt og fimm brýr sem tengdu borgarhlutana voru eyðilagðar. Því hefur fólk sitt hvoru megin árinnar ekki getað hitt ættingja sinna handan hennar. 

Írösk stjórnvöld segja að um 180 þúsund hafi nú flúið borgina og um 111 þúsund leitað skjóls í flóttamannabúðunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert