Napolitano látinn fjúka

Andrew Napolitano.
Andrew Napolitano. Wikipedia/Gage Skidmore

Fox News hefur látið stjórnmálaskýrandann Andrew Napolitano fjúka en hann hélt því fram að bresk öryggisyfirvöld hefðu mögulega átt aðkomu að því að njósna um Donald Trump í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs.

Þetta hefur Guardian eftir heimildarmanni hjá Fox en stjórnendur stöðvarinnar hafa ekki tjáð sig um málið.

Napolitano sagði í síðustu viku að hann hefði þrjár heimildir fyrir því að Barack Obama hefði farið út fyrir valdsvið sitt til að fylgjast með Trump.

Bresk yfirvöld segja fullyrðingar stjórnmálaskýrandans þvætting en þær komust í hámæli eftir að Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, hafði þær eftir á blaðamannafundi.

Trump hefur haldið því fram að Obama hafi látið hlera sig í Trump Tower á meðan kosningabaráttan stóð yfir en James Comey, framkvæmdastjóri alríkislögreglunnar, segir ekkert hafa fundist þessu til sönnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert