Verður sýnd óklippt í Malasíu

Beauty and the Beast auglýst í verslunarmiðstöð í Kuala Lumpur …
Beauty and the Beast auglýst í verslunarmiðstöð í Kuala Lumpur í Malasíu. AFP

Disney-myndin Beauty and the Beast verður sýnd óklippt í Malasíu. Mikil umræða skapaðist um myndina í landinu en í henni má finna „samkynhneigt augnablik“ eins og það hefur verið orðað.

Myndin verður frumsýnd í Malasíu 30. mars og verður bönnuð börnum yngri en þrettán ára. Hún verður hins vegar sýnd í fullri lengd, að sögn talsmanns Disney í Suðaustur-Asíu.

Emma Watson fer með aðalhlutverkið í myndinni.

Fríða og Dýrið, eins myndin heitir í íslenskri þýðingu, hefur vakið mikla athygli um heim allan ekki síst vegna þess að samkynhneigða persónu er þar að finna, þá fyrstu í sögu Disney.

Yfirvöld í Malasíu höfðu farið fram á að atriði yrðu klippt út en Disney neitaði að gefa eftir. 

Malar gull í kvikmyndahúsum

„Hvernig hann dansar er... hommalegt og samræðurnar og texti við lagið er það líka. Í sama atriði lyftir hann upp skyrtunni og sýnir sogblett á maganum,“ sagði Abdul Halim Abdul Hamid, yfirmaður kvikmyndaeftirlits Malasíu í samtali við AFP-fréttastofuna í síðustu viku.

En nokkrir þingmenn í landinu drógu þörfina fyrir að klippa atriði úr myndinni í efa í gær og sögðu málið allt hafa neikvæð áhrif á ímynd Malasíu.

Samkynhneigð er ólögleg í Malasíu og varðar brot á lögunum við sektir og jafnvel fangelsi.

Trúarhópar í Malasíu höfðu áður farið fram á að myndin yrði bönnuð í landinu. Trúarhópar í fleiri löndum hafa einnig gagnrýnt hana, m.a. í Singapúr og Rússlandi.

En þrátt fyrir þessa gagnrýni frá fámennum en háværum hópum hefur myndin malað gull í kvikmyndahúsum og er ein mest sótta mynd síðustu helgar, m.a. í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert