Deutsche lánaði Trump og þvætti rússneskt fé

Deutsche Bank var með síðustu fjármálastofnunum til að hætta að …
Deutsche Bank var með síðustu fjármálastofnunum til að hætta að taka við dollaramillifærslum frá Lettlandi. Margir bankar höfðu lýst yfir áhyggjum af að landið væri orðið miðstöð fyrir alþjóðlegt peningaþvætti, sérstaklega fyrir nágrannaríkið Rússland AFP

Þýski bankinn Deutsche Bank er í hópi þeirra alþjóðlegu banka sem rússneskir glæpamenn notuðu til peningaþvættis. Breska dagblaðið Guardian fjallar um þetta í dag og bendir á að Deutsche Bank hafi einnig lánað Donald Trump Bandaríkjaforseta 300 milljónir dollara vegna kosningaframboðs hans.

Fjölmiðlar víða um heim greindu frá því í gær að rúss­nesk­ir glæpa­menn, með tengsl við bæði rúss­nesk stjórn­völd og leyniþjón­ust­una, hafi notað marga af stærstu bönk­um heims til pen­ingaþvætt­is og að upphæðin nemi a.m.k. andvirði 20 milljarða dala.

Létu dómara úrskurða féflutningana

Lögregluembætti í nokkrum löndum rannsaka nú  hvernig hópur vel tengdra Rússa gat notað fyrirtæki skráð í Bretlandi til að þvo milljarða dollara  í reiðufé. Fyrirtækin veittu hvert öðru uppskálduð lán, sem rússnesk fyrirtæki gengust í ábyrgð fyrir. Fyrirtækin gjaldfelldu síðan lánin og innheimtu „skuldina“. Dómarar í Moldavíu úrskurðuðu því næst að úrskurðinum skyldi framfylgt og heimiluðu þar með að háar upphæðir voru færðar af rússneskum bankareikningum til Moldavíu með löglegum hætti. Þaðan var féð svo flutt á reikninga hjá bankanum Tasta Komercbanka í Lettlandi.

Deutsche Bank var einn af stærstu viðskiptabönkum Trasta allt þar til 2015, sem að sögn Guardian felur í sér að Deutsche Bank aðstoðaði viðskipavini Trasta við dollaratengd viðskipti og var aðferðin notuð til að flytja fé frá lettneska bankanum til banka víða um heim.

Hættu viðskiptum við Lettland vegna peningaþvættis

Guardian segir marga stóra banka hafa hætt viðskiptum sínum í Lettlandi á þessum tíma vegna þess að þeir hafi haft áhyggjur af að landið væri orðið miðstöð fyrir alþjóðlegt peningaþvætti, sérstaklega fyrir nágrannaríkið Rússland.

Bandaríski bankinn JP Morgan Chase hætti einmitt dollaraviðskiptum við Lettland árið 2013, vegna þrýstings frá bandaríska fjármálaeftirlitinu.

Frá og með árinu 2014, voru einungis tveir vestrænir bankar tilbúnir að samþykkja millifærslu á dollurum frá Lettlandi og voru þetta þýsku bankarnir Deutsche bank og Commerzbank. Deutsche hætti síðan viðskiptum við Trasta í september 2015.

Sex mánuðum síðar lét lettneska fjármálaeftirlitið loka bankanum og var ástæðan sögð endurtekin brot, sem og að bankinn hefði látið hjá líða að taka á hættunni á peningaþvætti.

Maija Treija, fjármálaráðherra Lettlands segir að féð sem sent var í gegnum Trasta hafi verið „annað hvort stolið eða eiga rætur sínar í glæpastarfsemi”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert