Eftirlýstur mafíósi fannst í kompu

Marco Minniti, innanríkisráðherra Ítalíu, hrósaði lögreglunni fyrir framgöngu sína.
Marco Minniti, innanríkisráðherra Ítalíu, hrósaði lögreglunni fyrir framgöngu sína. AFP

Lögreglan á Ítalíu handtók eftirlýstan mafíósa nýverið sem var sakfelldur árið 2009 fyrir morð á sex mönnum í borginni Duisburg í Þýskalandi árið 2007. Hinn 45 ára gamli Santo Vottari var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna og hefur verið í felum síðustu tíu árin.

Lögreglan handsamaði hann í íbúð í borginni Benestare á Suður-Ítalíu. Vottari hafði komið sér fyrir í þröngu herbergi í risi íbúðarinnar. Rýmið var það lítið að hann hefði ekki getað dvalið þar lengur en í nokkrar klukkustundir.  

Vottari er sagður hafa verið einn af höfuðpaurum Ndrangheta-glæpa­sam­takanna sem eru ein þau al­ræmd­ustu á Ítal­íu. Hann hlaut 10 ára og átta mánaða fangelsisdóm en auk hans voru 30 aðrir glæpamenn dæmdir til fangelsisvistar fyrir morðin í Duisburg. Mennirnir sex sem voru myrtir voru allir skotnir í höfuðið. Þeir voru milli tvítugs og þrítugs. Ástæðan fyrir morðunum voru átök á milli glæpasamtaka í borginni San Luca á Ítalíu.  

Marco Minniti, innanríkisráðherra Ítalíu, lofaði framgöngu lögreglunnar en í íbúðinni voru hvorki meira né minna en fjögur vel falin leynirými.  

Ndrang­heta-sam­tök­in eru þekkt fyr­ir vægðarleysi en talið er að um­svif þeirra séu nú meiri en siki­leysku mafíunn­ar og Camorra-sam­tak­anna í Napólí. Þau eru helsti inn­flytj­andi og heild­sali kókaíns sem fram­leitt er í Suður-Am­er­íku og smyglað til Evr­ópu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert