Fimm látnir og 40 særðir í London

Mark Rowley á blaðamannafundi fyrir skömmu.
Mark Rowley á blaðamannafundi fyrir skömmu. AFP

Fimm manns hafa nú látist vegna árásarinnar við þinghúsið í London. Um fjörutíu manns særðust, þar á meðal þrír lögreglumenn. Þetta staðfesti Mark Rowley, yfirmaður hjá Scotland Yard í London.

Hann sagði að grunsemdir séu uppi um að árásin tengist íslömskum öfgatrúarhópum.

Hann vildi ekki greina frá nafni árásarmannsins að svo stöddu en tók fram að verið er að rannsaka hverjir vitorðsmenn hans hafi verið.

Rowley greindi frá nafni lögreglumannsins sem lést í árásinni. Hann hét Keith Palmer og var 48 ára eiginmaður og faðir. Hann hafði starfað í lögreglunni í fimmtán ár.

Lögreglumaðurinn Keith Palmer sem var stunginn til bana í dag.
Lögreglumaðurinn Keith Palmer sem var stunginn til bana í dag. AFP

Lögreglan rannsakar enn vettvang árásarinnar og mun rannsóknin standa yfir í nokkrar klukkustundir í viðbót. 

Fimm Suður-Kóreumenn voru á meðal þeirra sem særðust.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, tjáði sig um árásina á Twitter. Þar sagði hann að þetta væri hvorki fyrsta né síðasta árásin á London eða þingið. Sömu gildum verði eftir sem áður haldið í heiðri.

Síðasta árásin í London sem hefur verið skilgreind sem hryðjuverkaárás var gerð í fyrra þegar þingkonan Jo Cox var myrt í norðurhluta Englands.

Árið 2005 voru gerðar árásir í neðanjarðarlestakerfi London þar sem fjórir breskir sjálfsmorðsárásarmenn voru að verki, undir áhrifum frá samtökunum al-Kaída. 52 manneskjur fórust.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Francois Holland, forseti Frakklands, ræddu við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í síma og vottuðu henni samúð sína, auk þess sem Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að Þjóðverjar stæðu með Bretum „gegn hvers kyns hryðjuverkum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert