Manafort sakaður um að leyna greiðslum

Paul Manafort hefur sætt gagnrýni fyrir tengsl sín við fyrrverandi …
Paul Manafort hefur sætt gagnrýni fyrir tengsl sín við fyrrverandi forseta Úkraínu. Nú er hann sagður hafa leynt greiðslum sem hann fékk fyrir störf sín. AFP

Þeim fjölgar ásökununum í garð Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donald Trumps Bandaríkjaforseta. Hefur fréttavefur BBC eftir úkraínska löggjafanum Serhiy Leshchenko að hann hafi sannanir fyrir því að Manafort hafi reynt að fela 750.000 dollara greiðslu sem hann fékk árið 2009 frá stjórnmálaflokki sem hliðhollur er rússneskum stjórnvöldum.

Manafort var um tíma ráðgjafi Viktors Yanukovych, fyrrverandi forseta Úkraínu, sem hraktist frá völdum 2014. Manafort hafnar því hins vegar alfarið að hann hafi fengið slíkar greiðslur

Manafort neyddist til að segja af sér sem kosningastjóri Trumps í ágúst í fyrra í kjölfar uppljóstrana um tengsl hans við Yanukovych. En Manafortog fleiri úr hópi annarra samstarfsmanna forsetans eru nú undir smásjánni vegna mögulegra tengsla sinna við rússnesk stjórnvöld á þeim tíma sem kosningabaráttan fór fram.

Á mánudag staðfesti James Comey, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, í fyrsta sinn að stofnunin væri að rannsaka meint afskipti Rússa af forsetakosningunum.

Leshchenko, sem er fyrrverandi rannsóknarblaðamaður, birti síðan í gær kvittanir sem sagðar eru undirritaðar af Manafort fyrir greiðslu 750.000 dollara fyrir tölvusendingu til fyrirtækis sem ber nafnið Davis Manafort.

Greiðslan kom frá aflandsfélagi í Belize í gegnum banka í Kirgistan.

Leshchenko segir um að ræða greiðslu til Manafort vegna ráðgjafaþjónustu sem hann hafi veitt stjórnmálaflokki Yanukovych og að greiðslan og dagsetningin passi við upplýsingar í bókhaldi flokksins, þar sem Manafort sé ennfremur nefndur á nafn.

Jason Maloni, talsmaður Manafort, hafnaði þessum nýjustu ásökunum og sagði þær tilhæfulausar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert