Reynist erfitt að endurheimta traust

Það er á brattann að sækja fyrir Google ef fyrirtækið …
Það er á brattann að sækja fyrir Google ef fyrirtækið ætlar að endurheimta traust viðskiptavina. AFP

Aðgerðir Google til að róa þau fjölmörgu fyrirtæki sem hættu ný­verið að aug­lýsa á vefsíðum tæknirisans virðast ekki ætla að skila tilætluðum árangri. Þessu er greint frá í frétt Financial Times.

Sniðganga á auglýsingaþjónustu Google tók kipp þegar ný­leg rann­sókn fjöl­miðils­ins Times sýn­di að aug­lýs­ing­ar frá þekkt­um fyr­ir­tækj­um og sam­tök­um hafa birst með mynd­bönd­um frá öfga­hóp­um.

Til að bregðast við vaxandi óánægju hefur Google sett fram tillögur um að víkka skilgreininguna á óviðeigandi efni, meðal annars með því að taka niðrandi orðræðu í garð einstaklinga til greina. Þá hefur fyrirtækið lofað að ráða fjölda fólks og notast við gervigreind til að hraða eftirlitsferlinu.

Ekki í fyrsta sinn

Þrátt fyrir yfirlýsingar Google eru fyrrum viðskiptavinir enn tregir til að taka upp þráðinn. „Við munum ekki setja þær [auglýsingarnar] aftur í sýningu uns við höfum séð nákvæmlega hvað á að gera og hversu hratt,“ segir framkvæmdastjóri eins stærsta vörumerkis Bretlands. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Google lendir í vanda af þessu tagi. Í fyrra greindi Financial Times frá því að vefsíða á vegum svokallaðra jihadista sem innihélt afhausanir hefði grætt á auglýsingaþjónustunni með auglýsingum frá Citigroup, IBM og Microsoft.   

„Það er engin leið til að hafa eftirlit með öllu efninu á Youtube,“ segir sérfræðingur á auglýsingastofu í London. „Munu þau geta gert þetta með algrími? Ef svo er þá gerist það ekki á einni nóttu, og ekki er líklegt að það verði fullkomlega skothelt.“

Fyrirtækin Marks and Spencer, Lloyds Banking Group, O2, L’Oréal, Channel 4, Havas, McDonald’s, ITV, RBS, Tesco, Renault, Audi, Honda, Volkswagen, Toyota, J Sainsbury og Argos eru meðal þeirra sem hafa hætt að auglýsa vefsíðum leit­ar­vél­ar­inn­ar Google og á vefsíðunni Youtu­be, auk ríkisfyrirtækja í Bretlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert