„Reynum að halda ró okkar“

Sigríður Torfadóttir Tulinius, starfar fyrir skoska þjóðarflokkinn.
Sigríður Torfadóttir Tulinius, starfar fyrir skoska þjóðarflokkinn.

„Við erum auðvitað í sjokki en reynum að halda ró okkar,“ segir Sigríður Torfadóttir Tulinius, sem er lokuð inni á skrifstofu skoska þjóðarflokksins sem vísar út að Westminsterbrúnni. Sigríður, sem starfar fyrir skoska þjóðarflokkinn, var á fundi þegar hryðjuverkaárásin við þinghúsið í London var gerð og frétti af henni í gegnum samstarfskonu sína sem var of sein á umræddan fund.

Sigríði var þá litið út um gluggan á Westminsterbrúna og sá þar fólk liggja. Stuttu síðar fengu allir starfsmenn hússins fyrirmæli um að halda kyrru fyrir. 

Í tilkynningu frá bresku lögreglunni um fimmleytið kom fram að ástandið er ekki enn tryggt og því hefur stóru svæði umhverfis þinginu og brúnni verið lokað fyrir umferð. Fólk er jafnframt hvatt til að gefa lögreglu allar upplýsingar sem það mögulega getur. 

„Við eru að fá fréttir af því smátt og smátt hvað er að gerast og fylgjumst vel með á öllum miðlum. Hugur okkar er hjá þeim sem eiga um sárt að binda,“ segir hún en eins og staðan er núna veit hún ekki til þess að neinn sem hún þekkir hafi lent í árásinni. 

Hún segir öll viðbrögð lögreglunnar og starfsfólks þingsins hafa verið til fyrirmyndar. Það sé góð tilfinning að vita af því en hún viðurkennir þó að þetta veki talsverðan ugg. Undanfarið hefur starfsfólk þingsins verið varað við mögulegri hryðjuverkaárás, að sögn Sigríðar. 

Eins og staðan er núna er fátt annað hægt að gera hjá þeim sem eru á skrifstofunni, sem telja um 25 manns, en að biða róleg. „Við erum búin að finna allan mat sem við fundum á skrifstofunni og erum búin að leggja í púkk,“ segir Sigríður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert